„Viljum bjóða ferskasta grænmeti landsins“

Fyrirtækið Austurlands Food Coop hóf í lok janúar innflutning á fersku grænmeti og ávöxtum til landsins með Norrænu. Á skömmum tíma hefur innflutningsmagnið vaxið úr 250 kg í eitt tonn á viku. Eftirspurnin kemur stofnendunum ekki á óvart heldur hversu hratt sagan af grænmetinu hefur borist.

„Ég flutti hingað til að opna Norðaustur-sushi. Austurland hefur besta fisk í heimi, sumt af besta kjöti heims, til dæmis lamba- og hreindýrakjötið, en ég sá strax að grænmetið var ekki nógu gott,“ segir Jonathan Moto Bisagni, sem stofnaði Austurlands Food Coop ásamt konu sinni Idu Feltendal.

Jonathan segist strax hafa farið að leita að hvernig hann gæti fengið sem best grænmeti fyrir sushi-staðinn en rekið sig á að það væri ekki einfalt. Mest ræktunin væri á Suðurlandi en þar væri hver bóndi með sína vöruna.

Grænmetið væri allt sent fyrst til Reykjavíkur og geymt í vöruhúsi áður en það væri sent austur, oft með næturstoppi á Akureyri, eða á illa kældum vörubílum í sumarhitanum. Það væri því ekki stundum ekki upp á marga fiska þegar það kæmi austur.

„Svo nota Íslendingar bara orðið kál þannig ég fékk stundum rangar tegundir. Þegar allt er komið austur er ekki hægt að skila því. Ég veit ekki hvort menn finna mun á grænmetinu í Reykjavík en við finnum hann sannarlega hér eystra. Það er erfitt að reka metnaðarfullan veitingastað þegar maður þarf að glíma við rugling frá birgjunum.“

Ferðalag færeyska laxsins

Stundum fór hráefnið enn lengri leið. „Fyrsta árið bað ég birginn minn í Reykjavík að senda mér lax í flugi til að hann væri eins ferskur og kostur væri. Ég fékk færeyskan lax sem var fluttur til landsins með Norrænu til Seyðisfjarðar, þaðan keyrt til Reykjavíkur og síðan flogið austur.“

Þetta dæmi hratt Jonathan út í að skoða nýjar leiðir. „Kærastan mín er dönsk og við vorum þar um jólin. Við nýttum tíma til að hitta lífrænan framleiðanda, 15 km frá Hirtshals, sem einnig safnar saman fyrir okkur grænmeti og ávöxtum víðar til að senda okkur með Norrænu. Hann sagði okkur að hann hefði áður selt til Íslands en þá hefðu skipin verið sex daga að sigla til Reykjavíkur en Norræna er bara þrjá daga að fara til Seyðisfjarðar.“

Úr 250 kg í eitt tonn á nokkrum vikum

Fyrsta sendingin kom í lok janúar. Þar voru 250 kg sem dreifðust milli um 20 Seyðfirðinga. „Við vildum byrja á fólkinu í bænum. Það þurfti líka að finna út úr ýmsum atriðum, enginn hafði flutt inn grænmeti með Norrænu í áratug og tollararnir þurftu að lesa út úr 30-40 mismunandi vörunúmerum.

Það hafa allir verið mjög hjálplegir við okkur. Fólkið hjá Smyril-Line svaraði því fyrst til að það gerði aðeins tilboð í flutning í tonnum, sem er orðið í lagi núna. Það kostar okkur ekki mikið meira að flytja inn eitt tonn heldur en 200 kg.“

Núna flytur Austurlands Food Coop inn eitt tonn á viku og viðtakendurnir eru yfir 60 talsins um allt Austurlands. Sendingunni er skipt upp milli viðtakenda seinni part þriðjudags og á miðvikudag keyrir Jonathan allt suður á Djúpavog til að afhenda pantanir. Þær ferðast líka til að sækja ferskan lax úr fiskeldinu.

Boltinn byrjaði að rúlla síðsumars þegar nokkrir Seyðfirðingar stofnuðu hóp á Facebook sem kallast Grænt mál til að panta grænmeti frá Vallanesi á Fljótsdalshéraði. Í hópnum eru nú yfir 400 manns, en Jonathan nýtir hann til að taka niður pantanir á grænmetinu. Til viðbótar hefur orðið til sérstakur uppskriftahópur. „Ég vissi að það væri þörf svo hún kemur mér ekki á óvart. Það sem kemur mér á óvart hversu hratt þetta hefur borist með Facebook og orðinu á götunni.“

Aðgerð til að sýna að Austfirðingar vilja betra grænmeti

Grænmetisinnflutningurinn er hugsjónastarf í huga Jonathans sem vill nýta tækifærið til að kenna Austfirðingum að meta gott grænmeti og setja þrýsting á stórkaupmenn um betri þjónustu.

„Ég kem frá New York og mér finnst allt stórkostlegt við Seyðisfjörð, hreina loftið, tæra vatnið, kyrrðin, náttúran. Það eina sem mig vantaði var gott grænmeti. Íslendingar eru vanir að lifa bara á kjöti, fisk og kartöflum. Það er að mörgu leyti gott en ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir hvað það geti fengið annað. Ég veit um marga sem hafa gaman af að elda heima hjá sér en það er ekki spennandi þegar bara þrjú hráefni eru í boði.

Austfirðingar eru bara ríflega 10 þúsund talsins þannig við erum ekki í forgangi hjá matvöruverslunum. Ég skil það, þetta er mikið umstang fyrir lítinn hagnað. En ef þú kemur inn í búðina sérðu sérðu að það er jafn mikið pláss lagt undir grænmeti, sem er ekki einu sinni í bestu gæðum, og sælgætið.

Í mínum huga er innflutningurinn aðgerð til að sýna birginum mínum að gæðin séu ekki nógu mikil, að sýna versluninni að grænmetið í hillunum sé ekki nógu gott. Markmiðið er ekki að knésetja hana heldur sýna hvað fólkið vill því markmið okkar er að bjóða upp á ferskasta grænmeti landsins með hröðustu skipatengingunni.

Vill bæta matarmenninguna á Austurlandi

Við reynum líka að vera sjálfbær, við nýtum ferjuna sem siglir hingað hvort sem er frekar en fjölga bílunum sem fara milli Egilsstaða og Reykjavíkur. Það er gaman að bera saman íslenskan tómat við spænskan sem ræktaður er lífrænt í mold. Ég segi ekki að einn sé betri en annar en þú finnur strax mun á lyktinni.

Markmið mitt er að bæta matarmenningu á Austurlandi. Við höfum þegar lagt okkar til við að koma Austurlandi á matarkortið og mér finnst hver staður hér hafa virkilega góðan veitingastað. Þá væri hægt að gera enn betri með betra hráefni.

Ég veit ég get haft áhrif á heimilunum og veitingastöðunum en við höfum líka verið í viðræðum með mötuneyti í skólum og sjúkrastofnunum. Þar borða börnin okkar og gamla fólkið alla daga og draumur minn er að geta útvegað þeim lífrænt grænmeti á samkeppnishæfu verði.“

Jonathan og Ida ásamt Oskari syni sínum með nýja sendingu af grænmeti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.