Viljayfirlýsing um byggingu 30 rýma hjúkrunarheimilis á Egilsstöðum

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, og Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, hafa undirritað, viljayfirlýsingu um byggingu 30 rýma hjúkrunarheimilis fyrir aldraða á Egilsstöðum.

arnipall_eirikur.jpgÍ fréttatilkynningu frá Fljótsdalshéraði segir að áætlað sé að heimilið verði tekið í notkun á árinu 2012. Fljótsdalshérað verður eigandi húsnæðisins.

Íbúðalánasjóður mun lána Fljótsdalshéraði fyrir allt að 100% byggingarkostnaðar, til allt að 40 ára. Ríkissjóður greiðir síðan leigu á samningstímanum sem svarar til 85% af stofnkostnaði og hefjast leigugreiðslur við afhendingu húsnæðisins. Stofnkostnaður sveitarfélagsins er 15%.

Heimamenn annast hönnun og byggingu húsnæðisins sem fjármögnuð verður með láni frá Íbúðalánasjóði. Samkvæmt samningi mun félags- og tryggingamálaráðuneytið greiða Fljótsdalshéraði hlutdeild í húsaleigu vegna húsnæðisins sem ígildi stofnkostnaðar.   Fljótsdalshérað leggur heimilinu til lóð og er um þessar mundir unnið að deiliskipulagi fyrir húsnæðið.

Nýja hjúkrunarheimilinu er ætlað að leysa af hólmi eldra húsnæði fyrir 18 hjúkrunarrými og að auki bætast við 12 ný.  Áfram verður unnið að því að efla og samræma heimaþjónustu, heimahjúkrun og frekari liðveislu til að bæta þjónustu við aldraða sem kjósa að búa sem lengst heima. Sú bætta þjónusta mun einnig nýtast íbúum hjúkrunarheimilisins.

Fljótsdalshérað og Heilbrigðisstofnun Austurlands hafa jafnframt undirritað viljayfirlýsingu um að HSA taki að sér rekstur hjúkrunarheimilisins.

Með þessu rætast langþráð áform um byggingu hjúkrunarheimilis á svæðinu. Þörf fyrir nýtt hjúkrunarheimili er óumdeilanleg og brýn og mun bæta til muna aðstæður aldraðra sem þurfa á þessari þjónustu að halda. Á tímum samdráttar, sérstaklega í byggingariðnaði, er auk þess mikilvægt að fá slíkt verkefni til eflingar atvinnu í sveitarfélaginu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.