Vilja reyna að efla flug um Norðfjarðarflugvöll

Flugfélag Austurlands og Fjarðabyggð hafa gert með sér viljayfirlýsingu um samstarf á sviði flugrekstrar á Norðfjarðarflugvelli. Flugfélagið, sem stundað hefur útsýnisflug víða um land í sumar, hefur hug á að vera með höfuðstöðvar sínar á Norðfirði í framtíðinni.

„Í fyrsta lagi erum við sem eigum félagið Norðfirðingar. Við komum að því þegar flugbrautin var lögð bundnu slitlagi. Þá vildum við láta setja bundið slitlag á flugstæði til að völlurinn nýttist betur, en af því varð ekki.

Þá tóku bæjaryfirvöld og aðilar af svæðinu af skarið og hefur flugstæðið nú verið malbikað. Við höfum skynjað vilja þeirra til að nýta völlinn og flugstöðina betur. Við höfum verið í samræðum í nokkurn tíma og þessi viljayfirlýsing er afrakstur þess,“ segir Kári Kárason, framkvæmdastjóri Flugfélags Austurlands.

Vilja opna fleiri velli

Flugfélagið var stofnað árið 2015 en fékk flugrekstrarleyfi fyrr á þessu ári. Það hefur í sumar boðið upp á útsýnisflug frá nokkrum stöðum á landinu, meðal annars Egilsstöðum og Neskaupstað. Félagið hefur einnig sinnt flugi fyrir Náttúrustofu Austurlands, til dæmis við vöktun hreindýra. Það er með eina flugvél, fjögurra sæta með einum hreyfli.

„Sumarið hefur verið tiltölulega rólegt en við hugsum að útsýnisflugið festi sig í þessi þegar ferðaþjónustuaðilar átta sig betur á að þessi afþreying er í boði,“ segir Kári.

Auk fyrrnefndu flugvallanna lenti vél félagsins á Breiðdalsvík í sumar og tók þar upp farþega sem voru á leið á Norðfjörð. Sá völlur telst hins vegar lokaður. „Við höfum lagt á það áherslu við stjórnvöld að opna velli eins og þar og á Borgarfirði sem hafa verið lokaðir. Okkur skilst að verið sé að skoða það.“

Kanna hvort hægt sé að bæta aðflugið

Í viljayfirlýsingunni segir að vilji sé til að höfuðstöðvar félagsins verði í framtíðinni á Norðfjarðarflugvelli. Til þess að svo geti orði þarf að vera til staðar flugskýli. „Það er forsenda flugreksturs á svæðinu þvívið þurfum að geta komið flugvélunum í skjól. Flugstöðin er ágæt, hún er í umsjá ISAVIA. Það er verið að skoða þau mál, að mér skilst.“

Í yfirlýsingunni er einnig talað um að þrýst verði á um rannsóknir á bættu aðflugi til Norðfjarðar, sem meðal annars feli í sér uppsetningu brautarljósa.

„Aðflugið að vellinum byggir upp á gamalli aðferð sem notaðist við stefnuvita. Það fer allt fram yfir sjó, 10-15 km frá vellinum. Veðrið getur verið þannig að þoku- og skýjabakkar liggja fyrir utan Norðfjarðarflóann í aðflugi en við völlinn getur verið gott skyggni og hærri skýjahæð. Flugleiðsaga er orðin nákvæmari og okkur langar að sjá hvort hægt sé að færa aðflugið nær vellinum.

Það er líka rétt að völlurinn er ofan í firði, umgirtum fjallahring. Slíkri staðsetningu fylgja kröfur um afkastagetu flugvélanna, að þær geti hætt við aðflug og klifrað upp fyrir fjallahæð.“

Hlusta eftir óskum íbúanna

Þá er í yfirlýsingunni komið inn á að kannaður verði vilji íbúanna til að nýta sér þjónustu félagsins á sem víðustum grundvelli. Flugfélagið bauð í sumar upp á flug milli Reykjavíkur og Norðfjarðar í tengslum við rokkhátíðina Eistnaflug.

Aðspurður um hvort áformað sé farþegaflug kveðst Kári lítið vilja segja, annað en allt sé opið. „Við erum að skoða vilja og þarfir íbúa því við viljum mæta þeim. Það getur ýmislegt falist í því. Á þessari stundu erum við ekki tilbúnir að leggja neinar línur. Við erum að skoða hvað sé fýsilegt og hverju íbúarnir óski eftir.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.