Viðvörun frestað til kvölds

Veðurstofan hefur frestað gildistöku gulrar veðurviðvörunar fyrir Austfirði um tíu tíma. Eftir þann tíma er veðurútlitið hins vegar orðið svartara en það var.

Viðvörunin var gefin út í gær og átti upphaflega að taka gildi nú klukkan ellefu. Um það leyti var viðvöruninni hins vegar breytt og gengur hún ekki í gildi fyrr en klukkan 21:00 í kvöld.

Veðurspár fóru að breytast í gærkvöldi á þann veg að dregið var úr snjókomu og hvassviðrinu seinkað. Engu að síður er von á að heldur bæti í vindinn eftir hádegið. Staðan á austfirskum vegum er þannig eftir snjókomu síðustu daga að víða eru miklir ruðningar og fljótt að verða blint þegar skefur fram af þeim eða hreinlega ófært.

En þótt viðvöruninni hafi verið seinkað er spáin núna orðin verri eftir það auk þess sem veðrið stendur lengur. Þannig segir nú að búist sé við norðaustan 15-23 m/s með snjókomu og skafrenningi sem leiðir til lélegs skyggnis og versnandi akstursskilyrða.

Viðvörunin gildir til klukkan sex á föstudagsmorgunn, 30. desember. Miðað við fyrirliggjandi veðurspár er útlit fyrir að hvasst verði út þann dag þótt snjókomunni linni um hádegið.

Engin viðvörun hefur verið gefin út fyrir Austurland að Glettingi. Veðurspár gefa þó til kynna að í nótt taki að hvessa og snjóa á Fljótsdalshéraði og það standi út morgundaginn. Þar gangi veðrið heldur fyrr niður en á fjörðunum. Útlit er fyrir að Vopnfirðingar sleppi þokkalega þótt þar verði hvasst á morgun og gangi á með éljum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.