Víða búið að ákveða að fella niður skólahald á morgun

Ekkert skólahald verður á Vopnafirði né Fljótsdalshéraði á morgun vegna veðurspár. Lögregla áréttar við fólk að vera ekki á ferðinni nema brýna nauðsyn beri til.

Í tilkynningu sem lögreglan á Austurlandi sendi frá sér á tíunda tímanum eru íbúar hvattir til að fylgjast með veðurspám og tilkynningum Vegagerðar um lokanir, sem verða víðtækar. Ekki eigi að vera á ferðinni nema brýna nauðsyn beri til.

Veðurstofan hefur varað við norðan stormi í nótt og fyrramálið með snjókomu og skafrenningi. Búast má við að úrkomu fari að gæta um klukkan þrjú í nótt, fyrst á Vopnafirði og ofanverðu Fljótsdalshéraði en úrkoman breiðist síðan út til strandarinnar. Sömu sögu er að segja af hvassviðrinu sem gæti orðið um tveimur tímum síðar, samkvæmt spám Belgings.

Útlit er fyrir að um klukkan sjö í fyrramálið verði komið vonskuveður um allan fjórðunginn. Vonast er til að vind taki að lægja um hádegi en áfram verði hríð fram á kvöld. Veðrið gengur þó ekki niður af alvörur fyrr en aðfaranótt fimmtudags og gæti varað framundir hádegi þann dag.

Aðgerðastjórnir á vegum almannavarna hafa fundað í dag, bæði á Egilsstöðum og Eskifirði. Aðgerðastjórn kemur saman klukkan fjögur í nótt á Egilsstöðum. Björgunarsveitir og fleiri eru í viðbragðsstöðu.

Skólahald

Í tilkynningu lögreglunnar er þeim tilmælum beint til foreldra að fylgjast með tilkynningum sveitarfélaga um skólahald í fyrramálið. Þegar hefur verið ákveðið að fella niður kennslu í grunn- og leikskólum á Fljótsdalshéraði og Vopnafirði.

Kennt verður í Menntaskólanum á Egilsstöðum en nemendum er þó ráðlagt að fylgjast með tilkynningum á innri vef og halda sig heima treysti þér sér ekki til skóla vegna veðurs eða ófærðar.

Í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað hefur fjórum prófum sem áttu að vera klukkan 10 í fyrramálið verið frestað. Reynt verður að halda prófin klukkan 14 á morgun en nánari tilkynningar verða sendar nemendum og birtar á vef skólans.

Ákvörðun um skólahald í Fjarðabyggð verður tekin fyrir klukkan 6:30 og birt á heimasíðu og Facebook sveitarfélagsins. Skólaakstri hefur verið aflýst.

Skólaakstur hefur verið felldur niður í Djúpavogshreppi. Þar er tilkynningar um skólahald að vænta um klukkan sjö í fyrramálið.

Á vef Seyðisfjarðarskóla er vísað til reglna skólans um óveður: „Starfsfólk skólans mætir til vinnu hvernig sem viðrar nema Almannavarnanefnd hafi mælst til þess að fólk sé ekki á ferli. Telji foreldrar veður viðsjált, halda þeir börnum sínum heima og tilkynna það til skólans, því þeirra er ábyrgðin. Foreldrar skulu fylgja yngstu börnunum inn í skólann í slæmum veðrum og sækja þau er skóla lýkur. Sé veður viðsjált munu starfsmenn hafa samband við heimili þeirra nemenda sem ekki eru í skólanum og hafa ekki tilkynnt fjarvist. Tilkynntar fjarvistir vegna veðurs eru skráðar sem leyfi, aðrar sem óheimilar fjarvistir.“

Fjarskipti og rafmagn

Starfsmenn Rarik og Landsnets eru í viðbragðsstöðu, enda hefur víða orðið rafmagnslaust á landinu í dag vegna veðursins. Þá lýsti fjarskiptafyrirtækið Míla yfir óvissuástandi, en rafmagnstruflanir hafa áhrif á kerfi fyrirtækisins sem þýðir að líkur eru á truflunum og útföllum á fjarskiptum þegar á líður.

Sigurrós Jónsdóttir, samskiptafulltrúi Mílu segir að í dag hafi verið unnið að því að kortleggja hvar varaafls sé þörf og mögulegra aðgerða til að tryggja rafmagn á fjarskiptastaði ef þörf krefur. Varaaflsstöðvar eru til taks til að halda uppi lágmarksafli á fjarskiptastöðum en þá slokknar á orkufrekum búnaði til að nýta rafmagnið sem best. Truflanir verði helst ef varaaflið klárast áður en tekst að koma rafmagni aftur á í tíma.

Þá getur rafmagnsleysi í þéttbýli leitt til þess að götuskápar missi rafmagn sem hefur áhrif á fjarskipti til heimila. Ennfremur getur ísing og vindur haft áhrif á fjarskipti í lofti.

Mynd úr safni.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.