„Við þurfum að standa uppúr“

„Það var smá vesen að fá að hafa teppið, en það gilda ákveðnar reglur um útlit á slíkri sýningu. Við tókum samt áhættuna og mættum með það og smelltum því á gólfið í lok dags með leyfi frá stjórnendum sýningarinnar,“ segir María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, um dregilinn sem lítur út eins og Norðurgata á Seyðisfirði og var lagður í bás Áfangastaðsins Austurlands á ferðasýningunni Mannamót í síðustu viku.


Mannamót er árleg ferðasýning sem haldin í flugskýli flugfélagsins Ernis í Reykjavík á vegum Markaðsstofa landshlutanna. Yfir tvö hundruð sýnendur tóku þátt að þessu sinni, þar af tuttugu og sex frá Austurlandi sem er metaðsókn. Samræmt útlit austfiskra ferðaþjónustuaðila vakti athygli og hrifningu gesta.

„Það er algert met, við vorum með 17 aðila í fyrra sem okkur fannst gott. Síðan 2015 höfum við unnið að því að samræma útlit á markaðssefni í tengslum við verkefnið Áfangastaðurinn Austurland, sem okkar samstöðutákn út á við. Venjan er að allir séu bara með sinn bakgrunn sem til þess að kynna sína starfsemi. Við höfum fundið mikla þörf, sérstaklega frá minni aðilunum, að fá aðstoð með kynningarefni. Flestir þessir aðilar hafa unnið áfangastaðaverkefnið með okkur frá upphafi og hafa því komið að því að skapa þessa sameiginlegu sýn.“

María segir markmiðið með sameiginlegu útliti básanna vera að skapa upplifunartengda heildarmynd af Austurlandi. „Bakgrunnsmyndirnar og textinn endurspegla sérstaka upplifun á Austurlandi, tengda þinni starfsemi eða þínum stað. Við erum með sama hönnuð sem vinnur þetta allt, leiðbeiningar um hvernig ljósmyndatungumál við vinnum með í verkefninu, þannig að þetta er heilmikill lærdómur fyrir alla sem hefur verið vel tekið.

Með þessu erum við að mynda rauðan þráð fyrir svæðið sem tengist upplifun, í stað þess að setja mynd af hóteli, er kannski mynd af fólki í göngutúr að borða nesti og hótelið sést í bakgrunni – semsagt, hver er upplifunin að koma og gista og borða á þínu hóteli, er það ekki að maturinn sé hreinn og náttúran allt í kring ótruleg.“

„Við verðum öll að ganga í takt“
María segir verkefninu miða vel. „Við erum skrefinu nær því að markaðssetja Austuland sem einn áfangastað. Ferðaskrifstofurnar sjá þessa sterku samstöðu okkar, að við séum að vinna saman. Við höfum fengið mikið hrós fyrir hjá ferðaskrifstofum sem finna þennan takt, þetta auðveldar samtalið og söluræðurnar verða auðveldari þegar þær átta sig á því að það er fullt í boði hjá okkur. Virðiskeðjan skiptir svo miklu máli og snertir svo marga og það er það sem við erum að reyna að innleiða með áfangastaðaverkefninu, ákveðna sýn til bæði ferðaþjónustuaðila og innan samfélagsins. Við verðum öll að ganga í takt, efla ferðaþjónustu innan svæðis. Við erum svo fá og verðum því að byrja á því og verða svo sterk út á við, það er langbesta sóknin.“

Teppið lýsti upp svæðið
Það var svo „regnbogagatan“ eða Norðurgata á Seyðisfirði sem kom, sá og sigraði á ferðasýningunni.

„Við vorum að hugsa hvað við gætum gert til þess að vekja athygli. Horfðum yfir sviðið, hvað það væri sem hefði staðið uppúr á síðasta ári, en sífellt er verið að mæla Instagramnotkun á svæðinu. Það var strax einn staður sem kom upp í hugann, Norðurgatan á Seyðisfirði, sem er langmest ljósmyndaði staður Austurlands af ferðamönnum. Regnbogagatan hefur alveg slegið í gegn, var gerð af samvinnu heimamanna og allir geta verið stoltir af.“

Það var áfangastaðahönnuðurinn Daniel Byström, sem stýrir verkefniu Áfangastaðurinn Austurland ásamt Maríu, sem hannaði teppið og lítur það út alveg eins og gatan sjálf. Allir voru ótrúlega hrifnir og áttuðu sig strax á tengingunni. Teppið lýsti svæðið upp, en við erum alltaf að reyna að ná í gegn og vekja athygli, við erum lengst frá Reykjavík og þurfum að standa uppúr og impra á okkar sérstöðu,“ segir María.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.