„Við höfum fengið rosalegar móttökur“

Veitingastaðurinn B̂ān Cĥāng, eða Hús fílsins, opnaði á Eskifirði fyrr í sumar og segja eigendur viðtökur hans hafa farið langt fram úr björtustu vonum.



Hús fílsins reka þau Völundur Þorgilsson og Sigríður Rósa Finnbogadóttir, en þau eru einnig eigendur Kaffihússins á Eskifirði.


„Við elskum Tailenskan mat og það hefur alltaf verið okkar draumur að opna slíkan stað. Það er tæpt ár síðan við ákváðum að skoða þetta, hvort við gætum fengið einhvern frá Tailandi til að elda hjá okkur og loks níu mánuðum seinna er Susan Butano komin til okkar,“ segir Sigríður Rósa.


Susan rak sinn eigin veitingastað í Tailandi. „Hún kom með matseðilinn og ræður honum alveg. Þetta er rosalega mikið grænmeti og allt ferskt. Hún flytur einnig öll kryddin inn frá Tailandi og malar þau saman með því stærsta morteli sem ég hef nokkru sinni séð. Hún vill hafa allt ferskt og þess vegna kaupi ég ferskan ananas, sker niður og frysti. Engin rjómi eða sykur er notaður í matinn, aðeins hágæða kókosmjólk,“ segir Sigríður Rósa.

Þétt setið
Sigríður Rósa segir staðinn greinilega kærkomna viðbót við matarflóru svæðisins, en hann er í Sæbergshúsi sem er niður við sjó. „Við höfum fengið rosalegar mótttökur og hefur verið margoft verið fullt út úr dyrum. Staðurinn er að vísu lítill, tekur aðeins um tuttugu manns, en það hefur alltaf fyllst um leið og klukkan slær sex, sem er alveg frábært. Við erum auðvitað á frábærum stað niður við sjó með dásamlegu útsýni yfir fjörðinn og út að Mjóeyri.“

Hefði verið gaman að fá Costco fílinn
Aðspurð út í nafnið á staðnum segir Sigríður Rósa; „Ég hef alltaf verið heilluð af fílum, svo stórar og sjarmerandi skepnur. Þegar ég keypti dúkana á staðinn fyrir mörgum mánuðum var ég ákveðin í að hafa fíla á þeim. Smá saman vatt þetta upp á sig og loks kom ekkert annað nafn til greina en Hús fílsins. Það hefði verið gaman að fá Costco fílinn, en hann fór strax.“

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.