„Við fengum líka að skera upp fiska og læra að meta fisk“

„Þetta var allt öðruvísi en ég bjóst við, en mér fannst nánast allt áhugavert. Ég bjóst við að þetta væri ekki alveg svona skemmtilegt,“ segir Jónas Þórir Þrastarson á Reyðarfirði, en hann var nemandi í Sjávarútvegsskóla Austurlands í fyrra.


Sjávarútvegsskóli Austurlands er nú að sigla inn í sitt þriðja starfsár en skólinn er byggður á Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar sem var settur á laggirnar þrem árum áður. Skólinn er ætlaður nemendum sem hafa lokið 8. bekk grunnskóla og geta þeir sótt um að komast í skólann tæpa viku á sumri og halda sínum launum í vinnuskólanum á meðan. Alls hafa tæplega 250 nemendur lokið námi við skólann.

„Markmið skólans er kynna fyrir nemendum mikilvægi sjávarútvegs á Íslandi sem er hryggjarstykki atvinnu víða á landsbyggðinni. Síldarvinnslan, sem hafði algjört frumkvæði af stofnun skólans, hugsaði hann sem nokkurskonar tól til að fá krakkana aftur heim að loknu námi þar sem störfum í sjávarútvegi hefur fækkað en meiri eftirspurn er eftir menntuðum einstaklingum í geiranum,“ segir Gunnar Þór Halldórsson, verkefnastjóri Sjávarútvegsmiðstöðvar hjá Háskólanum á Akureyri.

Mikill áhugi á verkefni sem óx hratt
Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar var stofnaður árið 2013 og var þá einungis kennt í Neskaupstað. Árið 2014 fór kennsla fram í allri Fjarðabyggð og var nafni skólans þá breytt í Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar. Árið 2015 færði skólinn enn út kvíarnar og til samræmis var nafninu breytt í Sjávarútvegsskóla Austurlands. Síldarvinnslan hlaut viðurkenninguna menntasproti atvinnulífsins árið 2015 fyrir frumkvæði að stofnun Sjávarútvegsskólans.

Árið 2016 tókust svo samningar milli sjávarútvegsfyrirtækja á Austurlandi og Háskólans á Akureyri, þess efnis að háskólinn tæki yfir alla umsjón með Sjávarútvegsskólans.

„Verkefnið var orðið ansi stórt fyrir Síldarvinnsluna og tók Sjávarútvegsmiðstöðin við Háskólann á Akureyri við verkefninu. Skrifaði skólinn undir samstarfssamning við þau sex fyrirtæki sem hafa komið að skólanum, en það eru Síldarvinnslan, HB-Grandi, Loðnuvinnslan, Skinney-Þinganes, Eskja og Gullberg.

Vinnuskólar sveitarfélaganna hafa einnig verið í samstarfi, en nemendur skólans koma frá vinnuskólunum og halda launum sínum þá viku sem þeir sækja skólann. Vinnuskólar hafa greitt helming launa nemendanna og fyrirtækin hinn helminginn. Aðrir styrktaraðilar skólans voru Fjarðabyggðarhafnir, Seyðisfjarðarhöfn, Vopnafjarðarhöfn, Hornafjarðarhöfn og Vinnumálastofnun,“ segir Gunnar Þór.

Síðustu ár hefur verið kennt á fimm stöðum á Austurlandi; í Neskaupstað, á Seyðisfirði Fáskrúðsfirði, Eskifirði og Vopnafirði, en kennslan hefur verið í náinni samvinnu við sjávarútvegsfyrirtæki á stöðunum.

Ánægja með skólann
Gunnar Þór segir að mikil ánægja ríki með verkefnið. „Samkvæmt kennurum skólans síðustu ár hafa mjög margir krakkar sýnt náminu og sjávarútvegi mikinn áhuga og gefið til kynna að þá langi að snúa aftur heim að loknu námi til að vinna í sjávarútvegi.

Fyrsti árgangurinn er að útskrifast úr Menntaskóla nú í vor og styttist því vonandi í að þeir nemendur fari að snúa aftur heim. Sjávarútvegsskólinn er framtíðarverkefni og taka fyrirtækin þessu sem framtíðarfjárfestingu og fá þau vonandi vel menntaða heimamenn til sín í vinnu sem sóttu skólann sem unglingar,“ segir Gunnar Þór.

Bjóst ekki við að námið væri svona skemmtilegt
Jónas Þórir Þrastarson, nemandi í níunda bekk Grunnskóla Reyðarfjarðar, fór í Sjávarútvegsskólann í fyrra. „Þetta var mjög fróðlegt og skemmtilegt. Við fórum í fræðslu um fiska, uppsjávarvinnslu, net, veiðarfæri og bara nánast allt sem tengist sjávarútvegi. Við fórum einnig og skoðuðum nýja frystihúsið hjá Eskju á Eskifirði og líka frystihús Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. Við fengum líka að skera upp fiska og læra að meta fisk,“ segir Jónas Þórir.

Þykir verklegt nám lærdómsríkara
Jónas Þórir segir það miklu máli skipta að námið sé að mestum hluta verklegt. „Það gerir þetta svo miklu skemmtilegra heldur en ef við hefðum verið að hlusta á fyrirlestra eða lesa í bókum meira og minna, þá verður maður bara þreyttur. Verklegt nám er miklu skemmtilegra og maður lærir miklu meira af því,“ segir Jónas Þórir sem segist eindregið hvetja önnur ungmenni til að nýta tækifærið og fara í skólann.

Langar að verða kokkur
Er Jónas Þórir búinn að ákveða hvað hann langar að læra í framtíðinni? Kannski eitthvað tengt sjávarútvegi? „Ég veit það nú ekki, það er kannski ekki alveg fyrsta val, þó svo ég hafi alveg íhugað það, en ég fór í Sjávarútvegsskólann vegna þess að ég hef alltaf haft áhuga á sjávarútvegi og hvernig hann virkar. Ég vissi eitthvað, pabbi er lærður fiskmatsmaður og bróðir pabba var mikið á sjó og búinn að segja mér eitthvað. En mig langar helst að læra kokkinn, eða eitthvað tengt matreiðslu.“







Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.