Vetrarfríið varð heldur lengra en ætlað var

Fjöldi Seyðfirðinga hefur setið fastur á Fljótsdalshéraði um helgina þar ófært hefur verið yfir Fjarðarheiði síðan á föstudagsmorgunn.

Á Tehúsinu á Egilsstöðum sátu í hádeginu þrjár fjölskyldur sem ekki hafa komist heim um helgina þegar Austurfrétt bar þar að garði. Þó nokkrar fjölskyldur fóru úr bænum fyrir helgi þar sem vetrarfrí var í skólum á fimmtudag og föstudag.

Áform þeirra um að komast aftur heim um helgina gengu ekki eftir. „Það er gaman að fara í frí en gott að komast heim aftur,“ segir Tinna Guðmundsdóttir.

Hún og maður hennar, Kristján Loðmfjörð höfðu pantað sér bústað á Einarsstöðum í vetrarfríinu og ætluðu að vera þar ásamt börnum sínum Stefáni, Trausta og Ólínu. Á sömu slóðum voru einnig Ósk Ómarsdóttir og Filippo Trivero ásamt syni þeirra Bjarti og Benedikta Svavarsdóttir og Ingirafn Steinarsson ásamt þeim Sigurbergi og Herði Áka. Alls sex fullorðnir og sex börn.

Spáin fyrir helgina var ágæt, þótt von væri á vondu veðri á föstudagskvöld. Það gekk hins vegar fyrr yfir og stóð lengur en vænst var auk þess úrkoman varð mikil þannig að vegir urðu ófærir. Veðrið varð bæði til þess að sumir komust ekki heim, meðan aðrir hafa ekki komist að heiman. Ófærðin hefur samt haft sín áhrif, töluvert mun hafa vantað af bæði nemendum og starfsfólki í skólana á Seyðisfirði í morgun.

Fjölskyldurnar gátu fengið veruna á Einarsstöðum framlengda og dvöldu þar í góðu yfirlæti. Þau hafa þó þurft að fara í Egilsstaði eftir nauðsynjavörum enda verið lengur á ferðinni en gert var ráð þegar pakkað var ofan í ferðatöskuna.

„Við erum þakklát fyrir fjölbreytt úrval veitingastaða og kaffihúsa á Egilsstöðum,“ segir Ósk en aðrir í hópnum bæta við að mánaðarmót og nýtt kortatímabil hafi líka komið sér vel á þessu augnabliki.

Börnin í hópnum segjast að almennt hafi verið gaman að vera á Einarsstöðum. Sumir benda þó á að gott hefði verið að vera heima þar sem Playstation-tölvan er.

Snjómokstursflokkar hafa verið að störfum á Fjarðarheiði frá því snemma í morgun. Meðan Austurfrétt ræddi við fjölskyldurnar bárust þær fréttir að til stæði að fara af stað með fylgdarakstur yfir heiðina upp úr klukkan tvö. Í fyrstu yrði aðeins einbreið lína í gegn en áfram yrði unnið við að moka og gera útskot. Í framhaldinu yrði hægt að opna fyrir almenna umferð.

Biðin er farin að taka á. Nokkrir úr hópnum áttu að taka þátt í að landa úr skipi í gærkvöldi. Því var frestað því skipið var lengur á leiðinni vegna veðurs. „Óvissan er oft verst, að vera sífellt að athuga með færð. Oft er best þegar gefið er út snemma að það yrði lokað, þá var hægt að halda áfram með daginn,“ segir Ósk.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.