Verkfalli aflýst: Samstaðan brast

sverrir_mar_albertsson.jpgFyrirhuguðu verkfalli starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjum hefur verið afboðað. Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinafélags, segir að upp hafi verið komin sú staða að verkfallið myndi ekki skila þeim árangri sem að var stefnt.

 

Í fjögur fréttum Ríkisútvarpsins sagði Sverrir að þar sem áfram yrði brætt í Þórshöfn, verksmiðjan í Helguvík hefði farið í gang og Færeyingar ekki samþykkt að setja löndunarbann á íslensk skip hafi staðan verið orðin erfið og ljóst að verkfallið myndi ekki skila þeim árangri sem að var stefnt.

„Þetta veikir okkar aðstæður,“ sagði Sverrir um framhald samningaviðræðnanna og áhrif aflýsingarinnar.

Í samtali við Austurgluggann í lok janúar, áður en fyrri verkfallsboðun bræðslumanna var dæmd ólögleg í Félagsdómi, að búast mætti við hörðum átökum ef til verkfallsins kæmi. Það yrði prófsteinn á íslensku verkalýðshreyfinguna.

„Þetta er fyrsta verkfallið á Íslandi í langa tíð og því prófsteinn á þá kjarabaráttu sem er framundan og prófsteinn fyrir verkalýðshreyfinguna. Það mun reyna á samstöðu verkalýðshreyfingarinnar í landinu og mikilvægt að hún haldi, ekki síst vegna þeirrar kjarabaráttu sem mun fylgja í kjölfarið og er fyrirsjáanleg. Ef hreyfingin nær ekki að standa saman þá boðar það ekki gott fyrir þá kjarabaráttu sem framundan er.

Við erum að kortleggja okkar veikleika og skipuleggja hvernig við verjumst gegn hugsanlegum verkfallsbrotum og/eða krókaleiðum. Við búum okkur undir allt mögulegt.“

Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað lýst því yfir að ekki kæmi til greina að semja við bræðslumenn um frekari kjarabætur en verði á almennum launamarkaði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.