Vel skipulagður listviðburður á heimsmælikvarða sem er lyftistöng fyrir samfélagið

Alþjóðlega samtímalistasýningin Rúllandi snjóbolti á Djúpavogi var meðal þeirra verkefna sem fengu viðurkenningu þegar Eyrarrósin var afhent í Neskaupstað í gær. Sveitarstjórinn segir viðurkenninguna staðfesta að hátíðin sé á réttri leið.

„Fyrst og fremst er þetta viðurkenning á að fólk kunni að meta það sem er að gerast og að við séum á réttri leið. Við höfum svo sem aldrei efast um það því við erum með góðan hóp með okkur,“ sagði Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri, að athöfninni lokinni.

Sex verkefni voru tilnefnd til verðlaunanna en þrjú þeirra fengu sérstaka viðurkenningu, auk Rúllandi snjóbolta fengu heimildamyndahátíðin Skjaldborg og Ferskir vindar í Garði hana. Ferskir vindar fékk svo Eyrarrósina sjálfa sem veitt er fyrir framúrskarandi menningarstarf á landsbyggðinni.

Áætlað er að tíu þúsund gestir hafi séð sýninguna í gömlu bræðslunni á Djúpavogi í fyrra en þar mátti líta verk eftir 31 listamann, jafnt innlenda sem erlenda. Í umsögn dómnefndar Eyrarrósarinnar segir að hátíðin öll sé „vel skipulagður listviðburður á heimsmælikvarða sem sé mikil lyftistöng fyrir samfélagið allt á Djúpavogi.“

Listsýningin var fyrst haldin árið 2014 en hún er samstarfsverkefni Djúpavogshrepps og CEAC sem hefur það að markmiði að auka tengsl Evrópu og Kína á listasviði. Stofnunin var stofnuð af Ineke Guðmundsson og eiginmanni hennar, Sigurði Guðmundssyni listamanni. Gauti segir samstarfið við þau hafa skipt sköpum fyrir hátíðina.

„Þau hjónin eru engum lík. Við Sigurður vorum einhvern tíman að ræða sýninguna og þá sagði hann að þótt maður sé lítill þá megi maður ekki láta það stoppa sig í að hugsa stórt. Þetta lífsviðhorf og drífandi hefur fleytt okkur yfir ansi margt.“

Svo hefur Þór Vigfússon verið hryggstykkið í sýningunni heimafyrir. Hann hefur verið með okkur alla tíð og ómetanlegur við að koma þessu upp.“

Undirbúningur sýningarinnar í ár er hafinn og segir Gauti að viðurkenningin efli hennar undirbúning. „Þetta eflir okkur okkur til enn frekari dáða. Við höfum þegar hafið undirbúning fyrir næsta ár. Við höfum fengið stærri nöfn með hverju árinu og það þarf að skipuleggja hátíðina langt fram í tíman. Við erum langt komin með hópinn fyrir næsta sumar og það er ekki ástæða til annars en hlakka til.“

Hefð er fyrir því að halda verðlaunaafhendinguna í heimabæ þeirrar hátíðar sem vann árið áður og því var athöfnin í gær í Egilsbúð í Neskaupstað en þungarokkshátíðin Eistnaflug fékk Eyrarrósina fyrir ári.

Endurskipulagning er í gangi á Eistnaflugi en hátíðin lenti í fjárhagsvandræðum eftir síðasta sumar. Guðmundur Gíslason, formaður stjórnar Eistnaflugs, sagði að við þær kringumstæður hefði hjálpað að hafa viðurkenninguna.

Eliza Reid, forsetafrú, er verndari Eyrarrósarinnar og afhenti verðlaunin. Hún sagði að fjölbreytt menningarframboð hefði komið henni á óvart frá því hún flutti til Íslands fyrir 14 árum síðar og á því hefði hún alltaf reynt að vekja athygli, bæði í fyrra starfi sem ritstjóri Iceland Review og sem forsetafrú.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.