Veira áður óþekkt á Íslandi greinist í kúm á Egilsstaðabúinu

egilsstadabylid.jpg
Barkarbólga hefur greinst í Egilsstaðabúinu á Fljótsdalshéraði. Sjúkdómurinn hefur ekki greinst áður á Íslandi og hefur verið útrýmt af Norðurlöndunum. Hann er af völdum herpesveiru. Ekki er vitað hvernig hann barst á búið. Sjúkdómurinn er ekki hættulegur mönnum.

Veiran greindist við rannsóknir á sýnum sem tekin voru við skimum Matvælastofnunar á smitsjúkdómum í nautgripum. Sýn voru tekin á búi um allt land sem valin voru með slembiúrtaki.

Á Egilsstaðabúinu kom í ljós smitandi barkabólga/fósturlát í kúm. Brugðist var við með að taka sýni úr öllum mjólkurkúm á búinu og reyndist stór hluti þeirra sýna jákvæður. Engin sjúkdómseinkenni hafa sést á Egilsstaðakúnum.

Sala lífdýra bönnuð

„Sýni voru jafnframt tekin á öðrum búum sem Egilsstaðabúið hefur nýlega haft viðskipti við með lifandi dýr en þau reyndust öll neikvæð. Því bendir ekkert til annars en að sýkingin sé einangruð við Egilsstaðabúið,“ segir í tilkynningu MAST í dag. Stofnunin hefur gefið út varúðarráðstafanir til að hindra útbreiðslu sjúkdómsins, til dæmis bannað sölu lífdýra.

Latneskt heiti sjúkdómsins er infectious bovine rhinotracheitis / infectious pulmonary vulvovaginitis (IBR/IPV). „Sjúkdómnum veldur herpesveira sem eingöngu getur sýkt nautgripi. Sjúkdómurinn hefur aldrei greinst áður hér á landi. Á þessari stundu er ekkert vitað um hvernig smitið hefur borist á búið.

Eðli þessarar sýkingar er þannig að hún getur verið til staðar án þess að einkenni komi fram en oftar er um að ræða alvarleg öndunarfæraeinkenni og ófrjósemi. Smit berst með líkamsvessum s.s. munnvatni og sæði. Veiran er viðkvæm og er því ekki lengi virk utan líkamans.“

Rauða nefið

Sjúkdómurinn er þekktur víða um heim og gjarnan kenndur við „rauða nefið“ sem helgast af blóðsókn í slímhúð í nefi, sem er eitt helsta einkenni hans. Af öðrum einkennum má nefna lystarleysi, hita, mikið rennsli úr augun og nösum, fósturlát og minnkandi mjólkurnyt. Sjaldgæft er að sjúkdómurinn leggi gripi af velli en efnahagslegt tap getur verið gríðarlegt, að því er fram kemur í upplýsingum á frá alþjóðastofnun um dýraheilbrigði.

Sjúkdómnum hefur verið útrýmt á Norðurlöndunum Austurríki og Sviss og honum haldið verulega í skefjum í Þýskalandi og Ítalíu. Sjúkdómurinn er alfarið bundinn við nautgripi en á tilraunastofum hefur þó tekist að sýkja sauðfé, geitur og svín með veirunni. Sambærilegar veirur eru samt þekktar í öðrum dýrategundum, til dæmis hreindýrum.

Smitast helst með sæði eða snertingu smitaðra dýra

Í upplýsingum frá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna segir að langlíklegustu smitleiðirnar séu með samgangi smitaðra dýra eða við frjóvgun með sýktu sæði. Aðrar smitleiður eru þó þekktar, veiran getur borist með mönnum, lofti eða tækjum sem hafa verið í snertingu við sýkta gripi og ekki verið sótthreinsaðir nógu vel.

IBR er ein útbreiddasta veirusýkingin í bandarískum nautgripum og þarlendis er áætlað að um helmingur fullorðinna gripa hafi orðið fyrir barðinu á sjúkdómnum. Þar uppgötvaðist veiran fyrst fyrir um sextíu árum en hún hefur lengi verið þekkt í Evrópu.

Smitað dýr losnar aldrei við veiruna

Sjúkdómurinn smitast hratt á milli dýra. Hægt er að halda honum í skefjum með lyfjagjöf eða hvíld en sýkt dýr losnar aldrei við hann að fullu. Við álag geta einkennin blossað upp aftur og sýkt dýr byrjað að smita. „Dýr sem einu sinni hefur verið sýkt getur aldrei talist öruggt,“ segir á hinni bandarísku The Cattle Site. Erlendis er sjúkdómnum haldið í skefjum með einangrun sýktra gripa og/eða búa.

„Næstu skref eru að taka sýni til veiruræktunar í því skyni að greina nákvæmar gerð veirunnar,“ segir til í tilkynningu MAST. „Jafnframt verður gerð könnun á mögulegri útbreiðslu veirunnar. Þetta er nauðsynlegur grunnur að ákvarðanatöku um frekari aðgerðir, en á meðan verður bann við lífdýrasölu áfram í gildi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.