Veik byggðalína rótin að rafmagnstjóni

Spennuhækkun sem olli miklu tjóni á rafmagnstækjum á Austurlandi og straumleysi hefur verið rakin til veikrar byggðalínu sem var ekki í stakk búin þegar sveiflur urðu í kerfinu. Bilanir innan svæðis juku á vandræðin.


Þetta kemur fram í svörum Rarik og Landsnets við fyrirspurnum bæjarráðs Fljótsdalshéraðs. Yfir 30 tjón hafa verið tilkynnt í sveitarfélaginu en bæjarráðið óskaði eftir skýringum á hvers vegna tjón hefði fyrst og fremst orðið á Austurlandi þegar upphafleg bilun hefði verið á suðvesturlandi.

Það var að morgni miðvikudagsins 17. maí sem útleysing varð hjá álverinu á Grundartanga. Við það minnkar álag hjá álverinu en rafspenna eykst annars staðar í raforkukerfi landsins. Til að bregðast við þessu á kerfinu að vera skipt upp í einingar, svokallaðar eyjar.

Í þessu tilfelli var landinu skipt upp í tvær eyjar en það dugði ekki til. Í svari Landsnets segir að miklar spennusveiflur hafi orðið eftir byggðalínunni nokkrum sekúndum áður en straumlaust varð frá Vopnafirði að Sigöldu.

Í gögnum RARIK segir að spenna frá flutningskerfi Landsnets inn á dreifikerfi RARIK hafi farið í 50% yfir eðlilegt gildi á meðan truflunum stóð. Sú yfirspenna skilaði sér áfram til notenda og fór illa með fjölda raftækja.

Þá varð bilun í rofa í spennuvirki á Hryggstekk í Skriðdal til þess að hækka enn frekar spennu. Bilanir urðu bæði þar og á hinum enda strengsins að Stuðlum í Reyðarfirði enda var sá strengur ekki í rekstri fyrstu dagana á eftir.

Í bæði svörum Rarik og Landsnets er byggðarlínan á Austurlandi sagður helsti valdurinn af miklum áhrifum rafmagnstruflananna á Austurlandi.

Rarik bendir á að Landsnet beri ábyrgð á spennugæðum en Rarik hafi þó unnið að því að koma upp yfirspennuvörum til að bregðast við áföllum sem þessum. Aldrei sé hægt að útiloka að notendur verði fyrir tjói en spennuvararnir virðist hafa virkað eins og þeir áttu að gera og komið í veg fyrir mun meira tjón.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.