Veiðifélög mótmæla harðlega áformum um laxeldi

Veiðifélögin á Fljótsdalshéraði , Veiðifélag Jökulsár, Veiðifélag Lagarfljóts, Veiðifélag Selfljóts og Veiðifélag Fögruhlíðarár mótmæla harðlega 10.000 tonna framleiðslu á frjóum norskum laxi í opnum sjókvíum í Seyðisfirði.


Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að samkvæmt áratugalangri reynslu Norðmanna og Skota sleppur að lágmarki einn lax fyrir hvert tonn sem framleitt er á þennan hátt sem merkir að um 10.000 laxar munu sleppa. Hluti þessara erfðabreyttu strokulaxa leita í nærliggjandi ár til hrygningar og rústa erfðamengi staðarfiska sem aðlagast hafa óblíðum skilyrðum um þúsundir ára. Það er dauðadómur yfir litlum staðbundnum stofnum og gengur auk þess þvert á markmið gildandi náttúruverndarlaga.

"Á Fljótsdalshéraði hefur af hálfu veiðifélaganna verið unnið mikið starf við að hlúa að og endurreisa þá fiskistofna sem þar hafa orðið fyrir búsifjum af annars konar iðju en hinu norska fiskeldi. Það starf hefur gengið vonum framar sem sannast með stóraukinni laxveiði í Jökulsá og góðum árangri af seiðasleppingum og endurheimt í Lagarfljóti," segir í tilkynningunni.

"Alls eru það ríflega 200 jarðir og þar með álíka margar fjölskyldur á Héraði sem eygja von um aukin veiðihlunnindi í nánustu framtíð eftir margra ára vinnu.

Það er því grafalvarlegur hlutur, ef stjórnvöld, bæði heima fyrir og á landsvísu hlaða undir erfðamengandi sjókvíaeldi sem skilar væntanlega sínum arði til annarra landa, en gera um leið nýsköpun heimamanna á sviði sjálfbærrar fiskræktar og verndar náttúru að engu. Til hvers eru þá stjórnvöld í landinu má spyrja?"

Einnig segir að Fiskeldi Austfjarða hf. hafi nú þegar þetta er ritað dregið til baka umsókn um það eldissvæði sem heimamenn hafa helzt barizt á móti. Það er þekkt stef í leikjafræðinni að leggja fram ítrustu og jafnframt óraunhæfar tillögur til að geta dregið til baka það sem ekki stenzt og úlfúð veldur og vinna sér þarmeð meðbyr fyrir „ fórnfúsa eftirgjöf“.

"Þetta breytir hins vegar engu um upphaflegu áformin sem eru eftir sem áður 10.000 tonna fiskeldi. Mengunin verður því hin sama, áhættan fyrir lífríkið minnkar ekkert og ógnin við uppbyggingarstarf fjöld veiðiáa á Héraði og Austurlandi er óbreytt," segir í tilkynningunni.

"Veiðifélögin á Fljótsdalshéraði beina því til ráðandi stjórnvalda að grípa til ráðstafana til að hafa hemil á þessum áformum og stýra málum í samræmi við hag þegna sinna eins og þau eru kjörin til en ekki annarra."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.