Vegagerðin komin langt yfir heimildir í Berufirði?

Forsvarsmenn Djúpavogshrepps telja Vegagerðina hafa tekið tæplega þrefalt meira efni úr námu í Berufirði en heimilað var í framkvæmdaleyfi, áður en hún sótti um leyfi til að taka meira vegna vegagerðar yfir fjörðinn. Efnistaka í því magni sem um ræðir gæti kallað á breytt umhverfismat.

Eins og Austurfrétt hefur áður greint frá neitaði sveitarstjórn Djúpavogshrepps á fundi sínum í síðustu viku beiðni Vegagerðarinnar frá 8. nóvember um að taka allt að 49 þúsund rúmmetra í viðbót af efni úr námu í Svartagilslæk sem er í landi Hvannabrekku í norðanverðum Berufirði.

Hreppsnefndin stöðvaði einnig alla frekari efnistöku og þar með framkvæmdir við veginn auk þess að biðja Vegagerðina um að óska eftir áliti Umhverfismatsstofnunar á því hvort breytingar sem orðið hefðu á framkvæmdinni í heild skyldu fara í umhverfismat.

„Það vilja allir að framkvæmdin haldi áfram en sveitarstjórn vill vanda stjórnsýsluna þegar kemur að framkvæmdaleyfisskyldum verkefnum. Þess vegna fannst okkur við þurfa að bregðast við,“ segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps.

Ljóst síðsumars hvert stefndi?

Vegagerðin sótti um framkvæmdaleyfi haustið 2016 og vísaði þá í aðalskipulag Djúpavogs með breytingum frá í desember 2015. Þar er efnismagn í námunni talið vera 72-90 þúsund rúmmetrar. Á þeim forsendum gaf sveitarfélagið út leyfið.

Í bréfi Vegagerðarinnar frá 8. nóvember kemur fram að búið sé að taka 235.000 rúmmetra úr námunni, eða 145.000 meira en heimilað var. Hefði hreppurinn heimilað aukna efnistöku eins og Vegagerðin fór fram á fyrir viku hefði efnistökuheimildin farið upp í allt að 284 þúsund rúmmetra, meira en þrefalt meira en upphaflega var veilt.

Í samtali við Austurfrétt sagði Gauti að forsvarsfólk sveitarfélagsins hefði gert athugasemdir þegar því varð ljóst að meira magn væri tekið úr námunni en áætlað var. Í ágúst sendi Gauti erindi á Vegagerðina þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um hve mikið efni hefði verið tekið, hvaðan og hver hefði veitt leyfi fyrir því.

„Við kölluðum eftir upplýsingum um leið og við sáum að efnistakan væri komin fram úr leyfinu. Við teljum Vegagerðina hafa farið langt fram yfir heimildir og spyrjum hvers vegna ekki hafi verið sótt um leyfi þegar allir sáu í hvað stefndi,“ segir Gauti.

Óska álit Skipulagsstofnunar

Ákvörðun sveitarstjórnar frá í síðustu viku um ósk um svör Skipulagsstofnunar á lögum um mat á umhverfisáhrif. Þar segir að efnistaka á landi þar sem teknir séu meira en 150 þúsund rúmmetrar skuli alltaf fara í umhverfismat. Taka á meira en 50 þúsund rúmmetrum af efni er tilkynningaskyld og tekur Skipulagsstofnun ákvörðun í hvert skipti hvort námuvinnslan þurfi í frekara umhverfismat. Vegagerðin í heild fór í umhverfismat áður en hafist var handa á sínum tíma.

Ástæðan fyrir efnisþörfinni er sig í nýja veginum yfir fjörðinn. Það er meira en vænst var og hefur þegar orðið til þess að vegagerðinni er ekki lokið eins og hugað var. Talsmenn Vegagerðarinnar segja að hægst hafi á siginu og vonir standi til að vegurinn verði opnaður næsta vor.

Ósammála um tölur í aðalskipulagi

Í svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn Austurfréttar um hví ekki hafi verið sótt um heimildir fyrr er því haldið fram að heimilt hafi verið að taka 210 þúsund rúmmetra úr námunni. Þá tölu má finna í upphaflegu aðalskipulagi Djúpavogshrepps frá árinu 2008 en í breytingunum frá 2015 er greinarmunur gerður á því efni sem heimilt er að taka, allt að 90 þúsund rúmmetra, og því efni sem alls sé í námunni, 210 þúsund. Í svari Vegagerðarinnar segir að sótt hafi verið fyrir framkvæmdaleyfi þegar ljóst hafi verið að magnið færi fram yfir það sem stæði í aðalskipulaginu.

Vegagerðin kveðst hafa svarað erindi sveitarstjóra síðsumars á þann hátt að búið væri að taka 203 þúsund rúmmetra úr námunni. Þar hafi verið útskýrðir erfiðleikar við verkið, að sjávarbotn sigi meira en reiknað hefði verið með. Þá var áætlað að aukalega þyrfti 7-9 þúsund rúmmetra þar sem enn væri óviss um frekara sig. Þar hafi verið greint frá því að námusvæðið yrði skoðað með Umhverfisstofnun nokkrum dögum síðar.

Samkvæmt aðalskipulagi Djúpavogshrepps er heimil efnistaka úr námunni allt að 210 þús. rúmmetrar. Vonir stóðu alltaf til þess að sig á sjófyllingu væri á undanhaldi. Þegar ljóst var að magn færi umfram það sem tilgreint var í aðalskipulaginu þá sótti Vegagerðin um framkvæmdaleyfi fyrir aukinni efnistöku til Djúpavogshrepps

Vara við enn frekari seinkunum og kostnaði

Í svari Vegagerðarinnar er áréttað að umhverfisáhrif vegarins hafi verið metin í heild á sínum tíma, meðal annars þegar veglínan var færð utar í fjörðinn. Við þá skipulagsbreytingu hafi verið reiknað með 125 þúsund rúmmetrum af efni úr námunni umdeildu. Leitast hafi verið við að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdarinnar í samstarfi við landeigendur, Umhverfisstofnun og sveitarfélagið.

Vegagerðin kveðst harma hvernig málum er nú háttað þar sem verkið hafi verið stöðvað. Það geti haft í för með sér að verkinu seinki enn meira en orðið hefur og kostnaður aukist enn frekar ef sækja þarf efni lengri vegalengdir. Kostnaður við sig á sjófyllingu sé, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, nú þegar orðinn um 200 milljónir króna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.