Vatnsmengun á Eskifirði: Ekki vitað um veikindi vegna mengunar

ImageEkki er vitað til þess að neinn hafi veikst af völdum vatnsmengunar á Eskifirði í byrjun mánaðarins né að tíðni heimsókna á heilsugæslu hafi aukist. Þær stofnanir sem komu að aðgerðum vegna mengunarslyssins í fiskimjölsverksmiðju Eskju í byrjun mánaðarins ætla að fara yfir viðbrögð sín á næstunni.

 

"Ekki er vitað til að neinn hafi veikst af völdum mengunarinnar, ekki er um aukna tíðni heimsókna á heilsugæslu eða innlagna," segir Helga Hreinsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Austurlands (HAUST).

Neysluvatn á Eskifirði mengaðist í byrjun mánaðarins þegar blóðvatnslögn í fiskimjölsverksmiðju Eskju var tengd inn á neysluvatnslögn sveitarfélagsins. "Þetta gerðist fyrir röð mistaka sem auðvitað eiga alls ekki að geta átt sér stað."

Tilkynning um slysið barst HAUST samdægurs, sunnudaginn 4. júlí. "Þá hafði strax verið gripið til ráðstafana um bakskolun lagna af hálfu vatnsveitustjóra og var það trú manna að mengunin hefði ekki borist nema á hluta kerfisins næst bræðslunni."

Daginn eftir var tekið sýni af neysluvatni í sundlauginni, sem er næst bræðslunni. Gerlar voru þar vel innan marka neysluvatnsreglugerðar. Kólígerlar fundust í sýninu en ekki E kólí.

Sýni voru tekin víðar á dreifikerfnu á miðvikudegi. Niðurstöður bárust til HAUST á hádeginu á föstudegi. Þar kom í ljós að mengun var mun meiri en menn héldu og fyrstu rannsóknir bentu til.

"Í þessum sýnum voru að hluta til kólígerlar í þriggja stafa tölum.  Í kjölfarið var rætt við vatnsveitustjóra um að hafa strax símsamband við leikskóla, heilsugæslu og þess háttar stofnanir og dreifibréf útbúið og sent í hús sem og upplýsingar settar á heimasíðu sveitarfélagsins."

Sýni hafa verið tekin af neysluvatni síðan um það bil annan hvern dag og hefur gerlafjöldi minnkað jafnt og þétt síðan. Tilmælin til íbúa um að sjóða neysluvatn stóðu í um tíu daga. Sýni verða næst tekin á fimmtudag.

Helga segir að samvinna HAUST, vatnsveitustjóra, heilsugæslu og annarra opinberra aðila hafa verið góð. "HAUST hefur hug á að funda með yfirmönnum vatnsveitunnar og fleiri hagsmunaaðilum seinni partinn í ágúst, eða þegar sumarfríum linnir, enda mikilvægt að draga lærdóm af hvers konar mengunarslysum."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.