Varnir byggðar samhliða hreinsunarstarfi

Byrjað er að gera varnir gegn skriðuföllum sem nýtast munu til framtíðar ofan byggðarinnar í sunnanverðum Seyðisfirði. Þau varnarmannvirki sem voru til staðar skiptu máli í skriðuföllunum þar um miðjan desember.

Þetta kom fram í máli Jóns Hauks Steingrímssonar, jarðverkfræðings hjá verkfræðistofunni Eflu á íbúafundi í gær. Byrjað er á bráðavörnum á þremur svæðum undir Botnum.

Fyrir Botnahlíð er horft til þess að gera skurð og varnargarð ofan byggðar, um 400 metra á lengd og um 2-2,5 metra á hæð. Auk þess að geta gripið aurskriður eiga þessi mannvirki að draga úr grunnvatnsrennsli og þar með álagi á kjallara húsa við götuna. Úrrennsli af svæðinu verður beint inn fyrir í Dagmálalæk.

Á svæðinu milli Nautaklaufar og Svabbatúns er verið að hreinsa lækjarvarveg, hækka kant frá Baugsvegi upp fyrir Botnahlíð og tengja veituskurð að Fossgötu. Þá er horft til þess að koma upp litlum dyngjum sem geti gripið skriður. Jón Haukur benti á að á þessu svæði væri gamall varnarkantur sem hefði gert sitt í desember.

Við Búðará er verið að gera varnar- og veituskurð að Fossgötu. Þá er verið að opna farveg árinnar og hlaða upp varnarkant til norðurs auk þess sem hreinsa og víkka þarf setþrónna sem fylltist í stóru skriðunni.

Milli Austurvegar og Fossgötu þarf að dýpka veituskurð frá Nautaklauf og stækka varnargarð frá lindarlækjum þar sem stækkuðu til frambúðar í desember. Á þessu svæði er vandamál að koma vatni úr hlíðinni í gegnum rennuna við bensínstöðina og þarf því líklega að leiða það út fyrir Fossgötu.

Á svæðinu ofan við Slippinn eru engar framkvæmdir hafnar en þar er horft til þess að gera varnargarða og veituskurði auk setþróar.

Fjölþættar aðgerðir gegn hættunni

Margvísleg skriðuhætta er í sunnanverðum Seyðisfirði. Í fyrsta lagi eru setlög uppi í Botnum á hægu framskriði og detta fram af brúninni þegar þau verða of þung. Í öðru lagi eru í hlíðinni vatnslindir sem geta stíflast og finna sér þá nýjar útrásir, einkum í miklum rigningum. Skriður sem fara af stað með þessum hætti eru þó sjaldnast mjög stórar. Í stóru skriðunni 18. desember voru nokkrir samverkandi kraftar að verkum.

Auk þessara atriða er fylgst með mögulegum skriðusvæðum upp eftir Búðará og Stöðvarlæk auk þess sem hætta er á að þiðnun sífrera í Strandartindi geti skilað efni niður í Þófa, sem eru þekkt skriðusvæði.

Verið er að meta helstu kosti sem til greina koma til að verja byggðina á Seyðisfirði til framtíðar. Gegn venjulegum skriðum má nefna skurði og varnargarði, setþrær, drenholur í Botnabrún til að koma í veg fyrir að lindir stíflist, vatnsfarvegi og lagnir í gegnum þéttbýlið og að lokum uppkaup eigna ef varnarmannvirki eru talin ómögulega eða alltof kostnaðarsöm.

Til að verjast stórum skriðum þarf að gera stóran massa jarðlaga stöðugan. Það er hann flesta daga nema eftir stórrigningar. Þar skiptir mestu máli að ná sem mestu vatni út úr hlíðinni. Slíkt væri gert með með 5-7 metra skurðum sem yrðu meira en kílómetri á lengd uppi í Botnunum.

Þá kemur einnig til greina að fjarlægja efni úr brúninni, en það er talið áhættumest aðgerðin auk þess sem ná yrði í burtu hundruðum þúsunda rúmmetra af efni. Þriðja leiðin er að bora láréttar holur inn í bergið til að leiða vatni út úr lausa efninu. Jón Haukur sagði þó að alltaf yrði aukin vöktun mikilvægasta leiðin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.