Vara áfram við ferðum út fyrir fjórðunginn

Aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands varar áfram við ferðum út fyrir fjórðunginn án þess að brýna nauðsyn beri til þar sem Covid-19 veiran er enn á sveimi í samfélaginu.

Þetta kemur fram í tilkynningu aðgerðastjórnar í dag. Eins brýnir aðgerðastjórnin fyrir fyrirtækjum að senda starfsfólk ekki landshorna á milli nema aðrar lausnir standi ekki til boða.

Í öllum tilvikum þegar svo háttar til þurfa ferðalangar að huga að sóttvörnum, halda fjarlægð, nota grímu þar sem þess er krafist, þvo sér vel um hendur og nota spritt.

Heilbrigðisráðherra ákvað fyrr í dag að framlengja gildandi samkomutakmarkanir um viku eða til 9. desember þar sem ástandið þykir enn tvísýnt. Ekkert smit er þó á Austurlandi né nokkur í sóttkví.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis til ráðherra frá í gær er þó opnað á þann möguleika að svæðisskipta takmörkunum í ljósi þess að 93% nýrra smita í síðustu viku voru á höfuðborgarsvæðinu.

Að endingu vekur aðgerðastjórn athygli á leiðbeiningum sóttvarnayfirvalda fyrir jól og áramót sem finna má á Covid.is. Í þeim er meðal annars komið inn á hegðun í jólaboðum og ferðalögum. „Stöndum vaktina áfram og böslum þetta saman.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.