Valgerður Gunnarsdóttir: Þýðir ekki annað en biðjast afsökunar, skammast sín og læra af þessu

Formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis kallar eftir að þjóðin sameinist í að forgangsraða þannig í ríkisfjármálum að samgöngumál njóti forgangs. Hún segir eðlilegt að margir séu sárir þegar aðeins sé hægt að framkvæma fyrir fimm milljarða í samgöngumálum á næsta ári þegar samgönguáætlun gerði ráð fyrir fimmtán.


„Mér þykja viðbrögðin mjög skiljanleg. Það er ljóst að það þarf að eiga sér stað niðurskurður og það verða margir sárir um allt land,“ segir Valgerður Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi sem jafnframt er formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

Austfirðingar hafa brugðist hart við eftir að í ljós kom í gær að ekkert yrði af fyrirhugðum framkvæmdum á Hringveginum fyrir botni Berufjarðar, sem voru tilbúnar í útboð, eða á Borgarfjarðarvegi í gær.

Báðar framkvæmdirnar voru inn á samgönguáætlun til ársins 2018 sem Alþingi samþykkti þann 12. október í haust, þremur vikum fyrir kosningar. Þegar fjárlög lágu fyrir rúmum tveimur mánuðum seinna var ljóst að aðeins væri þriðjungur þess fjár sem fara átti í nýframkvæmdir fyrir til staðar. Samgönguráðherra kynnti í gær hvaða vegabætur hefðu verið slegnar af.

„Það er á sinn hátt ábyrgðarhluti að samþykkja áætlun upp á tæpa 15 milljarða verandi aðeins með þriðjung af fjármagninu tryggt,“ segir Valgerður. „Ég tók þátt í að samþykkja þessa áætlun. Það ekkert annað að gera en biðjast afsökunar og skammast sín. Það voru hins vegar þarna þættir sem við sáum ekki fyrir.“

Var ástand ríkissjóðs ekki nógu ljóst þegar áætlun var samþykkt?
„Nei, ekki nægilega.“

Í haust var samþykkt stefna í fjárlögum ríkisins fram í tímann. Þar var þetta gat sýnilegt?
„Já, það var þannig.“

Hefði ekki verið rétt að vara kjósendur við því í aðdraganda kosninga að nýsamþykkt samgönguáætlun væri bjartsýn?
„Auðvitað hefðu menn getað gert það. Það verða hins vegar alltaf ákveðin mál ofan í kosningabaráttu. Vegaframkvæmdirnar komu kannski ekki svo mikið inn í þá umræðu. Hún er bara óskalisti landsins.“

Fengu þingmenn kjördæmisins eitthvað að segja um þessa forgangsröðun?
„Nei, ekki neitt. Við höfðum gert athugasemdir en höfðum ekki allar þær upplýsingar sem við þurftum að hafa í höndunum. Við sendum harðorða ályktun til ráðherra eftir kjördæmavikuna (fyrir þremur vikum) en hún snéri fyrst og fremst að Dettifossvegi.

Fyrst fara þarf í niðurskurð, er eðlilegt að ráðherra ákveði hann einn en ekki samgöngunefnd Alþingis?
„Ég er búin að biðja um að samgönguráðherra fundi með nefndinni og vænti þess að það geti orðið í næstu viku. Honum er ekki síður vandi á höndum að sætta sjónarmið. Það er ljóst að það verður að fara í forgangsröðun sem að einhverju leyti verður sátt og einhverju ekki.

Nefndin mun biðja um að fá að sjá þá forgangsröðun sem ráðherra og vegamálastjóri setja upp. Síðan er það nefndarinnar að fara yfir hana og jafnvel kalla einhverja fleiri til. Við skoðum hvort hægt sé að knýja fram endurröðun eða aukið fjármagn.

Ráðherra mælir fyrir samgönguáætlun og umhverfis- og samgöngunefnd vinnur hana áfram. Hvað þýðir þetta fyrir samgönguáætlanir framtíðarinnar. Er mark á þeim takandi?
Við verðum að læra af þessu að við getum ekki búið til áætlun án þess að hafa tryggt fjármagn. Þetta leggur ráðherra líka skyldur á herðar, hann mun gera mikla kröfu um aukið fjármagn inn í samgöngumál í næstu fjárlögum.

Undanfarin ár hefur þjóðin verið sameinuð í þeim vilja sínum að forgangsraða í þágu heilbrigðismála. Nú er spurning hvort þjóðin verði sammála um að forgangsraða í vegakerfið, sem sannarlega, eins og allir vita, hefur verið svelt árum saman.

Í því hefur verið mikill niðurskurður og margir þurft að bíða eða verið gerðir afturreka með framkvæmdir. Væntingarnar til þessar áætlunar þegar hún var loks samþykkt voru miklar og þess vegna vonbrigðin meiri. Nú verðum við að vona að við fáum fram þessa sátt þannig það verði aukið fjármagn. Þetta ástand er ekki boðlegt.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.