SÚN byggir útsýnispall við Norðfjarðarvita

Á dögunum samþykkti Samvinnufélag útgerðamanna Neskaupstað að hefja framkvæmdir við útsýnispall við Norðfjarðarvita. Fyrirverandi bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Páll Björgvin Guðmundsson fékk hugmyndina eftir að hann áttaði sig á möguleikum svæðisins.

 

„Ég er fullur af þakklæti til SÚN. Það er alveg frábært að þeir vilji gera þetta. Verkefnið væri ekki komið af stað nema fyrir þeirra framtak. Ég sá ekki fram á geta gert þetta einsamall,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson. 

Hugmynd kviknaði í nýju hverfi

Hugmyndina að útsýnispallinum fékk Páll Björgvin árið 2008. Hann og fjölskylda hans flutti til Neskaupstaðar árið 2004 og urðu strax að eigin sögn ofboðslega heilluð af staðnum, bæði fólkinu og umhverfinu.

„Ég hef aldrei séð svona fallegt útsýni, fjörðurinn og fjöllin eru ótrúlega falleg. Svo gerðist það fljótlega eftir að við komum að við misstum húsnæðið sem við vorum í og fórum við því að leita að einhverju nýju. Okkur langaði að búa út í Bakkahverfinu, útaf útsýninu,“ segir Páll. Það endaði síðan með því að Páll og fjölskylda hans byggðu sér hús út á Bökkum. Þá segist hann hafa mjög fljótlega farið að taka eftir því að það var mikil umferð að vitanum. Bæði heimamenn og útlendingar að nýta sér svæðið.

Páll hugsaði að það væri meiriháttar að búa til veitingastað hjá vitanum. Hallinn er þannig að þegar maður sæti á veitingastaðnum væri eins og maður yfir sjónum. „Þetta var árið 2008 sem þessi hugmynd var að myndast. En svo er það auðvitað mjög dýrt að reisa veitingahús en þá fór ég til Samvinnufélagsins og þeir veittu mér svona hvatningarstyrk. 

„Ég held að þeir sjái hvaða möguleikar búa í þessu svæði. En við verðum bara að sjá hvort þarna komi veitingahús en það kæmi mér ekki á óvart að það yrði. Það væru allir til í að prófa borða þarna með þetta útsýni. En við skulum klára þetta fyrsta skref. Þarna verður aðstaða fyrir heimamenn og ferðamenn, gesti og gangandi að njóta útsýnisins nema þegar það er þoka,“ segir Páll Björgvin og hlær.

Hugmyndin sett til hliðar

Svo fór reyndar að Páll var ráðin í önnur störf innan Fjarðabyggðar árið 2010. Sú vinna tók yfir næstu átta árin og útsýnispallurinn settur til hliðar eða þar til fyrir um ári síðan. Þá var farið í að klára að full hanna þetta og teikna. En þá aðallega sem útsýnispall. Páll segir að það er að vísu búið að hugsa fyrir því að þarna geti risið veitingahús í framtíðinni. Grunnurinn hefur verið lagður. 

Samkvæmt fréttatilkynningu verður útsýnispallurinn steyptur og verður um 202 fermetrar. Það var norðfirðingurinn Ölver Þórarinsson sem hannaði bygginguna.

Einnig kemur fram að búið er að semja við byggingarverktakann Nestak ehf. um byggingu útsýnispallsins og hefjast framkvæmdir á næstu dögum. Áætluð verklok eru í síðasta lagi í sumarbyrjun árið 2020. 

Margbreytilegir möguleikar pallsins

Þó svo Páll og fjölskylda hans séu flutt þá hefur hann ekki alveg sleppt tökunum á þessu og er ennþá að vinna með verkefnið. Það er hugmyndavinna í gangi núna um fjölbreyttari nýtinguna á pallinum. „Ein þeirra er til dæmis að setja sterkan sjónauka þarna. Ég ætla síðan að reyna vera með einhverja þjónustu næsta sumar. Hún er að þróast í þær áttir sem svona tengir okkur við náttúruna og slíka hluti. 

Ég sé fyrir að mér að við myndum setja eitthvað upp þarna sem tengist til dæmis núvitund, jóga og íhugun. Það eru pælingar í nota þetta líka til að tengja okkur við náttúruna, ekki bara til að njóta útsýnisins. Hlúa að okkar andlega heilsufari,“ segir Páll að lokum

 

 

 

 

 

 

Myndir frá hönnuði. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.