Ungum hælisleitanda vísað úr landi

Öðrum þeirra tveggja pilta sem komu til landsins með Norrænu fyrir ári og óskuðu eftir hæli hefur verið vísað úr landi. Kærunefnd útlendingamála fellst ekki á að pilturinn sé á barnsaldri þrátt fyrir að ágreiningur sé um niðurstöður aldursgreiningar.

„Hann gekkst undir röntgenrannsókn á tönnum og niðurstaða hennar var að vafi léki á aldri hans. Útlendingastofnun taldi hann eiga að njóta vafans en kærunefndin var annars sinnis,“ segir Guðríður Lára Þrastardóttir, lögfræðingur hjá Rauða krossi Íslands.

Pilturinn kom ásamt vini sínum til Íslands með Norrænu í byrjun september í fyrra. Þeir gáfu sig fram við lögreglu á Breiðdalsvík og óskuðu eftir hæli. Báðir komu frá Marokkó, sögðust vera undir 18 ára og óskuðu eftir hæli á Íslandi.

Allir einstaklingar undir 18 ára aldri teljast vera börn og voru strákarnir því á forræði barnaverndaryfirvalda í Fjarðabyggð. Annar drengurinn hefur fengið hæli hérlendis en hinn bíður örlaga sinna þar sem kærunefndin telur ekki sannað að hann sé yngri en 18 ára.

Er mjög hræddur

Hann hefur farið fram á frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndarinnar. Nefndin metur sjálf hvort taka beri beiðnina til greina. Sé það samþykkt getur viðkomandi verið á landinu meðan mál hans er lagt fyrir dómstóla. Þannig frestast brottvísunin.

Guðríður Lára er ekki bjartsýn á svo verði. „Reynsla okkar er að það er nánast aldrei fallist á þessar beiðnir.“

Verði úrskurðinum ekki snúið við verður pilturinn sendur heim til Marokkó. „Þetta eru honum mikil vonbrigði og hann er mjög hræddur,“ segir Guðríður.

Hann hefur að undanförnu stundað nám í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað og unað hag sínum þar vel, eftir því sem Austurfrétt kemst næst.

Ósammála stjórnvöld

Guðríður Lára er ósátt við niðurstöðu kærunefndarinnar. „Það væri ekki farið svona með málið ef hann hefði gögn sem sannað gætu aldur hans. Það eru gerðar ríkar kröfur til útlendinga sem koma hingað einir án skilríkja og geta ekki útvegað skilríki eða sannanir fyrir aldri.

Í þessu máli ríkir verulegur vafi um hvort hann sé 17 eða 18 ára gamall. Eitt stjórnvald ákveður að hann eigi að njóta vafans, annað ekki.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar