„Ungt fólk þarf að kjósa og það þarf að kjósa ungt fólk“

Félagasamtökin Ungt Austurland hafa hrundið af stað átaki til að hvetja ungt fólk til að kjósa í sveitarstjórnarkosningunum á laugardag. Félagið stendur fyrir samfélagsmiðlaleik á kjördag og hefur birt á heimasíðu sinni lista yfir alla einstaklinga undir fertugu sem eru í framboði á Austurlandi.

Ásta Hlín Magnúsdóttir, sem situr í stjórn samtakanna, segir það einn megin tilgang félagsins að hvetja og styðja ungt fólk til áhrifa á Austurlandi.

„Þetta er í rauninni tvíþætt, við viljum hvetja ungt fólk til þess að nýta kosningaréttinn sinn en við viljum líka hvetja til þess að ungt fólk fái brautagengi til að starfa í sveitarstjórnum.

Þess vegna förum við í að gera þessa samantekt á heimasíðuna okkar þar sem fólk getur séð á hvaða listum ungu fólki er treyst til ábyrgðar og hvaða lista sé gott að kjósa til að koma ungu fólki að“. 

„Instagram leikurinn á svo að hvetja ungt fólk til að kjósa, við erum með glæsilega vinninga frá austfirskum fyrirtækjum en til að vera með þarf bara að taka mynd á kjördag og merkja með myllumerkinu #ungaustkýs,“ segir Ásta Hlín en hún tekur það skýrt fram að ekki eigi að taka myndir í kjörklefanum.

„Við erum í rauninni bara að hvetja fólk til að kjósa annarsvega og taka mynd hins vegar, myndin má vera af kisunni þinni eða kaffibolla. Það er alveg á gráu svæði gagnvart kosningalögum að biðja fólk um að sanna á einhvern hátt að það hafi kosið, þannig að þetta er svona aðskilið. Kjósa og taka mynd en alls ekki taka mynd af sér að kjósa.“

Ásta segir að það sé mikilvægt að ungt fólk eigi fulltrúa í sveitarstjórnum. „Ég er ekki að halda því fram að ungt fólk sé önnur dýrategund en fjölbreytni skiptir klárlega máli.

Ungt fólk hefur aðra sýn á ýmis málefni og er einfaldlega að takast á við aðra hluti frá degi til dags en þeir sem eru eldri. Þau sem eru að koma undir sig fótunum núna og kannski að taka ákvörðunina um að setjast að fyrir austan þekkja hvernig er að gera það, forgansröðun þessa hóps skiptir máli ef við viljum að fleiri fylgi í kjölfarið og taki þessa ákvöðrun, velji að koma austur,” segir Ásta og bætir við:

„Þetta er eiginlega grundvöllurinn fyrir félaginu okkar, ef við viljum fá ungt fólk austur þá verða sjónarmið ungs fólks að heyrast. Þessvegna þarf ungt fólk að kjósa og það þarf að kjósa ungt fólk“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.