Umhverfisstofnun lagt sig fram um að dreifa störfum um landið

Forstjóri Umhverfisstofnunar telur gagnrýni heilbrigðisnefndar Austurlands á að stofnunin dragi til sín verkefni og þar með störf á landsbyggðinni ekki standast skoðun þar sem fáar stofnanir hafi dreift starfsemi sinni jafn víða. Aðrir þættir hafi orðið til þess að stofnunin endurnýjaði ekki þjónustusamning við HAUST um eftirlit eystra.

Heilbrigðisnefnd gagnrýndi Umhverfisstofnun nýverið fyrir að endurnýja ekki samning við Heilbrigðiseftirlit Austurlands (HAUST) um eftirlit með fiskimjölsverksmiðjum á Austurlandi. Þá fluttist eftirlit með sorpurðunarstöðum einnig frá HAUST til Umhverfisstofnun fyrir nokkrum misserum.

„Í lögum um hollustuhætti er ekki heimild fyrir Umhverfisstofnun til að framselja eftirlit, eingöngu er fyrir hendi almenn heimild til þjónustukaupa.

Í þeim tilfellum, sem eftirlit hefur verið framselt, hefur okkur ekki þótt það gefast vel því það lengir boðleiðirnar innan kerfisins og hefur í för með sér vissan tvíverknað. Við höfum heldur ekki verið með samninga við önnur eftirlit sveitarfélaga en fyrir austan.

Hvað varðar eftirlitið með fiskimjölsverksmiðjunum þá þarf að laga það að verkefnaáherslum stofnunarinnar vegna viðskiptakerfis með losunarheimildir. Fyrir þessari ákvörðun eru því aðeins faglegar forsendur.

Þarna er heldur ekki verið að leggja niður stöðu starfsmanns heldur aðeins færa til verkefni,“ segir Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, aðspurð um ástæður þess að stofnun endurnýjaði ekki þjónustusamninginn við HAUST.

Hún hafnar því að stofnunin stundi að flytja störf frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Í tengslum við breytinguna nú hafi beinlínis verið auglýst eftir starfsmanni sem yrði á starfsstöð stofnunarinnar á Egilsstöðum. Engar umsóknir bárust sem uppfylltu kröfur þannig ekki var ráðið í starfið.

Þvert á móti hafi Umhverfisstofnun síðustu ár lagt sig fram um að auglýsa störf á þeim níu starfsstöðvum sem hún hafi um allt land.

„Forsætisráðuneytið hefur sett það markmið að 10% starfa sé auglýst án staðsetningar. Við höfum auglýst 90% sérfræðistarfa án staðsetningar, sem er umtalsvert meira en flestar aðrar ríkisstofnanir. Við höfum meðal annars nú nýverið auglýst tvær stöður sérfræðinga í loftslagsmálum án staðsetningar. Umhverfisstofnun starfar um allt land.“

Starfsstöð Umhverfisstofnunar á Austurlandi er að Vonarlandi á Egilsstöðum.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.