Umboðsmaður Alþingis úrskurðar sauðfjárbændum á Jökuldal í vil gegn ráðuneyti

Umboðsmaður Alþingis telur að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi ekki staðið rétt að málum þegar það vísaði frá stjórnsýslukæru þeirra gegn Matvælastofnun. Stofnunin ætlaðist til að bændurnir gerðu nýja landnýtingaráætlun eftir nýjum lögum ekki væri ákvæði um endurskoðun í þeirri eldri.


Samkvæmt búvörulögum skulu þeir sauðfjárbændur sem ætla sér að vera inni í gæðastýringu skila inn áætlun um landnýtingu til að vinna að úrbótum á landi þar sem þess er þörf.

Á grundvelli nýrra laga árið 2013 ætlaðist MAST til þess að bændur uppfærðu áætlanir sínar.

Í gildi var áætlun til ársins 2018, án ákvæða um endurskoðun eða uppsögn. Sauðfjárræktendur á fjórum bæjum á Jökuldal sem nýta Jökuldalsheiði til beitar óskuðu eftir að MAST staðfesti þá áætlun sem í gildi væri.

Því hafnaði stofnunin og sömuleiðis óskum bændanna í kjölfarið um leiðbeiningar um hvað vantaði til að gamla áætlunin stæðist skoðun. Fjárbændurnir fjórir sendu stjórnsýslukæru til atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins en það vísaði málinu frá á þeim forsendum að ekki væri um stjórnvaldsákvörðun að ræða hjá MAST og það því ekki kæranlegt.

Bændurnir héldu máli sínu áfram og kvörtuðu til Umboðsmanns Alþingis sem taldi ráðuneytið ekki hafa staðið rétt að ákvörðun sinni.

Í úrskurði embættisins segir að ráðuneytið hefði átt að meta hvort MAST hefði beint málinu í réttan farveg. Æðra stjórnvaldi beri að gæta hvort lægri stjórnvald hafi sett málið í rétt ferli en það hafi ekki verið gert í þessu tilfelli.

Umboðsmaður mælist því til að málið verði tekið upp að nýju óski bændurnir eftir því og að ráðuneytið hagi vinnu sinni framvegis í takt við úrskurðinn.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.