Um 24 tonn af fjölpósti dreift í Fjarðabyggð 2016

Um 14 kíló af fjölpósti barst inn á hvert heimili í Fjarðabyggð á síðasta ári sem gerir í heildina um 24 tonn. Ólöf Vilbergsdóttir, verkefnastjóri umhverfismála hjá Fjarðabyggð, segir að íbúar mættu vera duglegri að flokka og aðeins 16% sorps endi í grænu tunnunni.


„Við hendum allt of miklu í almenna sorpið, eða um 84% heimilissorps hafnar í gráu tunnunni og fer því ekki í endurvinnslu,“ segir Ólöf, sem á síðasta ári tók til hliðar allan fjölpóst sem barst á heimilið, sem í árslok voru tæp 14 kíló.

„Þetta er svipað magn og ég bjóst við, það er vissulega minna hér en í Reykjavík þar sem öll frídreifi-dagblöðin eru. Þetta er samt mjög mikið, en ef við reiknum með að svipað magn hafi borist inn á hvert heimili í Fjarðabyggð, sem eru um 1800 talsins, þá reiknast mér til að fjölpósturinn í heildina hafi verið tæp 25 tonn. Við framleiðslu á pappír fyrir það magn má gera ráð fyrir að felld hafi verið 425 tré.“

„Það þarf enn frekari vitundarvakningu“

Ólöf vill benda íbúum á að hægt er að afþakka fjölpóst með límmiðum frá Póstinum, en hún telur að ekki sé mikið um að fólk geri það.

„Nei, ég held ekki. Fólk vill líka fá ákveðinn póst, eins og IKEA-bæklinginn og Dagskrána og með því að afþakka fjölpóst færðu ekki neitt slíkt, það er bara allt eða ekkert. Því er svo mikilvægt að við flokkum pappír og annað þannig að hægt sé að endurvinna þetta. Það þarf enn frekari vitundarvakningu, en það er lítið mál að vera með ílát undir þetta innandyra sem auðvelt er að flokka í. Við verðum líka að muna að það fellur til flokkanlegt rusl annarsstaðar en í eldhúsinu, til dæmis sjampóbrúsar og fleira á baði og þvottahúsi.“

Lífseig míta

Hvað með orðróminn um að ekki skipti máli að flokka, allt rusl fari hvort sem er á endanum á sama stað?

„Já, þett er alveg ótrúlega lífseig míta sem seint virðist ætla að þagna. Það er dýrt að urða rusl, en verktakar taka við sorpi, flokka það enn betur og senda í endurvinnslu. Fyrir það fást peningar þannig að ruslið er verðmæti, sé það rétt flokkað.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.