Tveir af þremur fulltrúum Fjarðalistans hætta

Tveir af þremur bæjarfulltrúum Fjarðalistans hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu í bæjarstjórn. Uppstillinganefnd mun raða upp á listann fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

„Í fyrsta lagi tel ég átta ár ágætis tíma, í öðru lagi er ég í nægum öðrum verkefnum sem taka mikinn tíma. Það er ekki þar með sagt að ég komi ekki einhvern tíman aftur,“ segir Elvar Jónsson, oddviti Fjarðalistans.

Elvar hefur ákveðið að láta staðar numið en hann hefur farið fyrir listanum frá árinu 2010.

Esther Ösp Gunnarsdóttir, sem skipaði þriðja sætið í síðustu kosningum og hefur einnig verið bæjarfulltrúi frá árinu 2010, ætlar heldur ekki að halda áfram. Líkt og Elvar útilokar hún ekki afskipti af stjórnmálum síðar.

Eydís Ásbjörnsdóttir, sem skipaði annað sætið og hefur verið fulltrúi listans í bæjarráði á þessu kjörtímabili, hefur hins vegar lýst því yfir að hún sækist eftir endurkjöri.

Hjá Fjarðalistanum mun uppstillingarnefnd gera tillögu um uppröðun á listann eins og fyrir síðustu kosningar. Kamma Dögg Gísladóttir, formaður listans, segir að fljótlega verði óskað eftir áhugasömu fólki og tilnefningum um einstaklinga sem komi til greina.

Beðið verður með stærstu aðgerðirnar fram yfir kosningar um sameiningu Fjarðabyggðar og Breiðdalshrepps þann 24. mars næstkomandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.