Tvær bilaðar flugvélar á leið til og frá Egilsstöðum í dag

Talsverð röskun hefur orðið á farþegaflugi til og frá Egilsstöðum í dag þar sem bilanir komu upp í tveimur vélum Air Iceland Connect. Önnur vélin átti að fara frá Egilsstöðum í morgun og hin að fara austur klukkan þrjú.

Eftir því sem Austurfrétt kemst næst kom upp bilun í Hallgerði langbrók, TF-FXB, þegar hún var tilbúin til flugtaks á brautinni á Egilsstöðum klukkan níu í morgun.

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri flugfélagsins, staðfestir að bilun hafi komið upp og flugvirki verið sendur austur til að gera við hana. Það tókst um klukkan tvö og var vélinni þá flogið tómri suður til Reykjavíkur til frekari skoðunar.

Vélin reyndist í lagi miðað við að hún var send strax í loftið aftur og var væntanleg til Egilsstaða um klukkan hálf sex.

Vél á leið austur bilar

Um borð voru um 40 farþegar sem voru komnir í loftið með annarri flugvél, Auði djúpúðgu TF-FXA þegar bilun kom upp í hreyfli. Vélin fór á loft frá Reykjavíkurflugvelli klukkan þrjú og var lent þar á öðrum hreyflinum um hálftíma síðar við talsverðan viðbúnað.

Sú vél átti að sækja farþegana sem voru strand á Egilsstöðum eftir bilunina í morgun. Þeir ættu að komast suður um klukkan sex, líkt og þeir sem áttu bókað með miðdegisvélinni á fimmta tímanum. „Það er útlit fyrir að þeir komist allir með henni,“ sagði Árni.

Kvöldflugið austur til Egilsstaða er á áætlun en klukkutíma seinkunn verður á flugi til Akureyrar í kvöld. Þá varð ferð til Kulusuk á Grænlandi aflýst. Árni segir óljóst hver áhrifin verða á áætlun næstu daga, það skýrist þegar búið verði að greina bilunina í Auði djúpúðgu.

Ekki hærri bilanatíðni en í öðrum flugvélum

Báðar vélarnar eru af gerðinni Bombardier Dash8 Q400 en Air Iceland er með þrjár slíkar í þjónustu sinni. Árni segir tilviljun að tvær vélar hafi bilað á sama degi.

Í samtali við RÚV fyrr í dag sagði Árni að þetta væri í fyrsta sinn sem bilun kæmi upp í hreyfli Bombardier vélar en slíkt hefði komið fyrir í Fokker-flugvélum sem fyrirtækið var áður með.

Tvö ár eru síðan Fokker-unum var skipt út fyrir Bombardier vélarnar. Talsvert bar á bilunum fyrst eftir að þær síðarnefndu voru teknar í gagnið. „Það er rétt að þær fóru illa af stað. Flugvélar eru flókin tæki en þessar vélar bila ekki meira en aðrar, til dæmis þær sem notaðar eru í millilandaflug, þótt fólk verði mögulega meira vart við það í innanlandsfluginu. Við setjum alltaf öryggið í fyrsta sæti og það er farið eins varlega og hægt er.“

Mynd úr safni

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.