Treysta á að loðnuleit verði haldið áfram

Útgerðarmenn á Austurlandi treysta á að áfram verði haldið leit að loðnu en nánast ekkert fannst í haustleiðangri Hafrannsóknastofnunar. Ýmsar blikur eru á lofti með sveiflur í uppsjávartegundum sem Austfirðingar byggja mikið á.

„Við Austfirðingar erum nú orðnir vanir því að haustmælingar gefi litlar væntingar um veiði. Auðvitað er það alltaf meira áhyggjuefni en hitt, en hinsvegar er greinin í góðu sambandi við Hafró og ég á von á því að leit verði haldið áfram í desember og janúar,“ segir Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Loðnuvertíðin skiptir austfirsk útgerðarfyrirtæki miklu máli og segir Jens Garðar máli skipta að allt verði gert sem hægt er til að finna loðnu.

Hann segir að undanfarin ár hafi göngumynstur og dreifing loðnunnar breyst. Skýringar séu ekki á reiðum höndum en helst er talið að breytt hitastig sjávar og stækkun hnúfubaksstofnsins hafi áhrif. Fagnaðarefni sé að Hafrannsóknastofnun hafi fengið auknar fjárheimildir til rannsókna á loðnu og ákveðið hafi verið að smíða nýtt rannsóknaskip.

Minni makríll hefði mikil áhrif eystra

En það er ekki bara loðnan sem óvissa ríkir um. Í haust birtist alþjóðleg ráðgjöf þar sem lagður til var að aflaheimildir í makríl yrðu minnkaðar um helming. Slíkt gæti haft mikil áhrif á Austfjörðum.

„Ef strandríkin munu fara eftir ráðgjöfinni í einu og öllu þá hefði það gríðarlega neikvæð áhrif á sjávarútvegsfyrirtækin hér fyrir austan. Hins vegar verður að líta til þess að samningar hafa ekki náðst um deilistofnana þ.e.a.s síld, makríl og kolmunna. Sem dæmi má nefna að í fyrra var ráðgjöfin í makríl um 550 þúsund tonn en heildarveiðin var um milljón tonn.

Ef það sama verður uppá teningnum í ár þá má búast við því að heildarveiðin muni minnka um 200 þúsund tonn þ.e úr milljón í ca 800 þúsund tonn. En þetta eru ennþá bara getgátur. Hitt er svo annað mál að það er algjörlega óviðunandi að strandríkin nái ekki samkomulagi um deilistofnana. Það er ekki ábyrgt eða sjálfbært til lengri tíma,“ segir Jens Garðar.

Mikilvægt að nýta deilistofnana á sjálfbæran hátt

Á sama tíma hefur verið lagt til að alþjóðlegur kvóti í síld verði aukinn. Þar þarf þó mögulega að hafa varann á.

„Samkvæmt mínum skilningi á ráðgjöfinni er stofninn ekki að stækka heldur var forsendum aflareglu breytt og því kom út meiri kvóti. Því verður athyglisvert að fylgjast með þróuninni á komandi árum.

Fyrir okkur sem þjóð er gríðarlega mikilvægt að alþjóðlegir deilistofnar séu ekki ofnýttir heldur byggðir upp á sjálfbæran og ábyrgan hátt, líkt og við gerum við okkar eigin fiskistofna í okkar lögsögu.“

Dýrara að sækja kolmunnann á alþjóðleg hafsvæði

Að lokum kann það að hafa áhrif á Austfirðinga ef ekki nást samningar við Færeyinga um að veiða hluta af íslenska kolmunnakvótanum í færeyskri lögsögu. Samningaviðræður hafa staðið yfir en gengið hægt.

Jens segir að erfitt væri að sækja allan kolmunnakvótann án þess að veiða nokkuð í færeyskri lögsögu. Mögulegt væri að veiða á alþjóðlegum hafsvæðum en það væri helst í janúar-apríl, á sama tíma og loðnuvertíðin stendur sem hæst.

Ef ekki náist samningar þurfi fyrirtækin að takast á við það verkefni en mun meira muni kosta að veiða kolmunnann ef fara þarf lengra. „Auðvitað vona ég að þjóðirnar muni ná samkomulagi, það má ekki gleyma því að þetta eru líka miklir hagsmunir og verðmæti fyrir Færeyinga.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.