Torfið flettist af Lindarbakka í Dyrfjallaveðri

Talsverðar skemmdir yrðu á húsinu Lindarbakka á Borgarfirði í miklu hvassviðri í gærkvöldi þegar torf á þaki hússins flettist af. Þá fauk malbik af veginum við brúna yfir Fjarðará.

„Torfið virðist hafa flest af í heilu lagi, farið yfir strompinn og brotið hann en járnið stendur eftir,“ segir Björn Aðalsteinsson, íbúi á Borgarfirði.

Lindarbakkahúsið er þekkt langt út fyrir Austfirði en margir gestir sem heimsótt hafa Borgarfjörð mynda rauða húsið með torfþakinu.

Fyrst í morgun var óttast að skemmdir hefðu einnig orðið inni í húsinu en svo mun ekki vera. Starfsmenn Borgarfjarðarhrepps hafa í dag komið torfinu frá hús og gengið frá þakinu þannig að ekki verði frekari skemmdir. Ljóst er að setja þarf nýtt þak á húsið.

Fleiri skemmdir urðu á Borgarfirði í veðurhamnum í nótt. Vinnubúðir Héraðsverks sem standa við áhaldahúsið í ytri enda þéttbýlisins hreyfðust til og voru tjóðraðar niður. Þá fauk hlið við kirkjugarðinn og grindverk brotnaði við kirkjuna.

Austan við brúna yfir Fjarðará flettist malbik af á um 20 metra kafla. „Ég man ekki eftir að slíkt hafi skeð hér í Borgarfirði,“ segir Björn.

Björn telur að þakið hafi farið af Lindarbakka milli hálf eitt og eitt í nótt. Vindur í gærkvöldi stóð af vestri og þá myndast svokallað Dyrfjallaveður á Borgarfirði.

„Í vestan og norðvestanátt þá stendur vindurinn niður úr Dyrfjöllunum sem myndar svona agalegar hviður, svo dúrar í á milli,“ segir Björn. Enginn vindmælir er á Borgarfirði en hviður upp á 35-40 m/s mældust í kringum miðnætti í gærkvöldi á Vatnsskarði. Mestur vindhraði í gærkvöldi mældist á Gagnheiði, 50 m/s.

Björn bendir einnig á að tíðarfarið að undanförnu, hlýtt og þurrt, hafi haft sín áhrif. „Torfið var svo þurrt. Ég veit ekki hvort það hefði farið af ef það hefði verið frost.“

Myndir: Björn Aðalsteinsson

lindarbakki2 ba

borgarfjordur fok jan19 ba

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar