Tölvukerfið hrundi í PISA-prófinu

Helmingur þeirra nemenda sem tóku síðustu PISA-könnun í Egilsstaðaskóla gátu ekki lokið prófinu því tölukerfið sem notað var hrundi. Það á ekki að hafa haft áhrif á frammistöðu nemenda í könnuninni.


„Já, ég get staðfest að þetta er rétt. Það var um helmingur nemenda sem gat ekki lokið við könnunina því tölvukerfið sem við notuðum þoldi ekki álagið,“ segir Ruth Magnúsdóttir, skólastjóri Egilsstaðaskóla.

Í samtali við Austurfrétt sagðist hún ekki vita hvaða áhrif þetta hefði haft þar sem skólinn hefði ekki enn fengið niðurstöður nemenda sinna í prófinu. Látið var vita af biluninni. „Krökkunum fannst þetta ömurlegt því þau vilja standa sig.“

Aðspurð sagðist Ruth ekki hafa heyrt af sambærilegum vandamálum annars staðar.

Gylfi Jón Gylfason, sviðsstjóri matssviðs hjá Menntamálastofnun, hafði ekki heyrt af biluninni í Egilsstaðaskóla þegar Austurfrétt hafði samband við hann. Hún hafi ekki átt að hafa áhrif.

„Almennt séð eru mjög skýrar reglur um hvað má og hvað má ekki í PISA. Ef upp kemur tæknileg bilun þá gildir ekki niðurstaðan,“ segir hann.

PISA könnunin er samræmd milli landa og á að mæla færni nemenda í ýmsum greinum. Ísland, einkum landsbyggðin, kom illa út úr síðustu könnun en niðurstöður úr henni voru kynntar í síðustu viku.

Ekki er hægt að skella skuldinni á tæknileg vandamál. „Við höfum ekki heldur heyrt af sambærilegum vandamálum í öðrum skólum þannig þetta skýrir ekki fallið sem er á landsbyggðinni.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar