Töldu ekki rétt að bjóða þjónustu bara fyrir Rafveitu Reyðarfjarðar

Stjórnendur Landsvirkjunar töldu ekki rétt að Rafveita Reyðarfjarðar nyti kjara sem öðrum viðskiptavinum fyrirtækisins byðist ekki. Þess vegna sagði Landsvirkjun upp þjónustusamningi sínum við rafveituna.

Þetta kemur fram í svörum Landsvirkjunar við fyrirspurnum Austurfréttar. Á íbúafundi á Reyðarfirði á mánudag vísuðu æðstu stjórnendur Fjarðabyggðar til uppsagnar samningsins sem helstu ástæðu þess að ákveðið hefði verið að selja rafveituna.

Landsvirkjun hefur frá árinu 2005 annast daglegar pantanir á forgangsorku fyrir Rafveitu Reyðarfjarðar á grundvelli gagna um notkunarmynstur og áætlana vegna raforkuvinnslu Búðarárvirkjunar. Jafnframt hefur Landsvirkjun gert pantanir á ótryggðri orku fyrir rafveituna og jöfnunarábyrgð, sem er í raun að koma áfram mismuni þeirra orku sem er keypt og nýtt.

Stjórnendur Fjarðabyggðar hafa bent á að í gegnum þennan samnings séu keypt 95% þeirrar orku sem rafveitan selur síðan áfram. Það að rafveitan þurfi nú sjálf að sjá um þessi mál kalli á ráðningu sérhæfðra starfsmanna og kostnaður við það verði slíkur að reksturinn verði í járnum, auk áhættunnar sem fylgi því að reyna að finna út réttu kaupin. Því hafi verið réttast að selja.

Í svari Landsvirkjunar kemur fram að fyrirtækið hafi fyrst tilkynnt um uppsögn samningsins 18. október í fyrra. Gefinn hafi verið rúmur aðlögunartími miðað við að uppsögnin tæki gildi 1. janúar 2020. Fresturinn hafi síðan verið framlengdur til 1. mars að til að koma til móts við beiði rafveitunnar.

Þjónustan hafi upphaflega verið veitt til að auðvelda Rafveitu Reyðarfjarðar að koma í viðskipti við Landsvirkjun við markaðsvæðingu raforkukerfisins árið 2005.

Þá hafi aðstæður verið aðrar en í dag. Allir aðrir heildsöluviðskiptavinir Landsvirkjunar sjái um sín rekstrarmál sjálfir. Þeim hafi fjölgað þótt sumir þeirra séu minni heldur en Rafveita Reyðarfjarðar.

Landsvirkjun er ekki tilbúin til viðræðna um endurnýjun samningsins sem rennur út á nýju ári eða sambærilegan samning.

„Sem fyrr segir er mikilvægt í samkeppnisumhverfi að allir viðskiptavinir sitji við sama borð. Landsvirkjun hefur ekki veitt öðrum en Rafveitu Reyðarfjarðar slíka þjónustu. Til að gæta jafnræðis hefur Landsvirkjun ákveðið að samningar af þessu tagi verði ekki í boði í framtíðinni og allir viðskiptavinir þurfi að sinna sínum rekstri sjálfir.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.