Tíðindalítil nótt á Eistnaflugi

Nóttin var tíðindalítil í Neskaupstað þar sem þungarokkshátíðin Eistnaflug hófst í gær. Einhver tjöld og fellivagnar skemmdust þó þar í hvassviðri í gærkvöldi og gestum var komið í skjól í íþróttahúsinu.

Magný Rós Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar segir að einhver tjöld og ferðavagnar hafi brotnað í rokinu í gærkvöldi á hátíðartjaldsvæðinu úti á Bökkum. Brugðist hafi verið við með að virkja varáætlun, sem sé alltaf til staðar og voru tjaldbúar fluttir inn í íþróttahúsið með aðstoð björgunarsveitarinnar Gerpis.

Þetta hafi þó lítið skyggt á gleðina, gestir hafi skroppið af tónleikum til að til að flytja föggur sínar en mætt síðan á tónleika Sólstafa, eins stærsta númers hátíðarinnar og í metal-karíókí. Nú sé fólk farið að flytja sig aftur á hátíðtíðartjaldsvæðið.

Hjá lögreglu fengust þær upplýsingar að nóttin hefði gengið ágætlega fyrir sig, að öðru leyti en að veðrið hefði sett strik í reikninginn. Einn ökumaður var gripinn grunaður um ölvun og annar án réttinda. Annars vonast lögreglan til að hátíðin haldi áfram á þessum góðu nótum og veðrið verði betra, sem það á að vera samkvæmt spá.

Magný segir veðrið í Neskaupstað fínt, aðeins skýjað og léttur gustur. Stemming sé í hópnum, margir hafi látið vita af því að þeir séu á leið austur í dag. Þó virðist sundlaugin þegar vera orðin stútfull af þungarokkurum. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.