Þykkur rykmökkur yfir stórum hluta Austurlands

Ryksveimur ofan af hálendinu norðan Vatnajökuls liggur nú yfir stórum hluta Austurlands, birgir útsýni og veldur fólki óþægindum.

Sól var á lofti í morgun en um hádegið byrjað að þykkna upp í kringum Egilsstaði og dró þá fyrir sólu. Íbúar þar lýsa því hvernig fínt set berist inn um opna glugga eða valdi þurrk í augun um leið og farið sé út.

Gul veðurviðvörun var gefin út fyrir flesta aðra landshluta en Austurlands og Austfirði en það breytir því ekki að víða er hvasst á svæðinu.

Hjá Veðurstofu Íslands fengust þær upplýsingar að á gervitunglamyndum mætti sjá ryksveim liggja ofan af hálendinu norðan Vatnajökuls. Á því svæði sé nú mjög hvass vestanvindur og greinilega orðið þurrt. Skyggni á Egilsstaðaflugvelli var um klukkan þrjú komið niður í tvo kílómetra.

Á meðfylgjandi mynd frá Veðurstofunni má sjá rykmökkinn sem gular rákir. Hann virðist eiga upptök sín inni við Öskju/Kverkfjöll og dreifast þaðan yfir Austurland og Austfirði.

Von er á að rykið liggi áfram yfir fram á nótt. Í kjölfar fyrirspurnar Austurfréttar var gefin út gul viðvörun sem gildir til klukkan níu í kvöld vegna hvassviðris. Varað er við rykmistri, einkum á heiðum og snörpum vindhviðum við fjöll.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.