Þurfa að minnka landvörslu í þjóðgarðinum

Útlit er fyrir að minnka þurfi landvörslu á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs og stytta opnunartíma Snæfellsstofu í ár. Fjárframlög til þjóðgarðsins hafa ekki aukist á sama tíma og umferð um garðinn vex og landssvæðið sem fylgjast þarf með stækkar.

„Þetta er ekki í takt við neitt sem er að gerast í ferðaþjónustunni. Við vonuðumst til að auka opnunartímann en nú er útlit fyrir að hann verði minni en nokkurn tímann áður. Þetta er í fyrsta sinn sem við höfum minna rekstrarfé milli ára,“ segir Agnes Brá Birgisdóttir, þjóðgarðsvörður á austursvæði.

Í krónum talið er fjárframlagið svipað og síðustu ár á sama tíma og laun og verðlag hækkar sem þýðir að minna verður úr að moða í rekstrinum. Þá þurfti þjóðgarðurinn í fyrra að greiða starfsmönnum óbyggðaálag aftur í tímann eftir að hafa tapað dómsmáli. Á sama tíma er verið að reyna að efla aðalskrifstofu þjóðgarðsins, sem verður tíu ára í ár, auk þess sem ný landssvæði hafa bæst við. Þar munar mest um kaup ríkisins á jörðinni Felli sem á land að Jökulsárlóni en þar þarf að hafa mikla vöktun. Ekkert fé til rekstrar fylgdi þeim landakaupum.

Minni landvarsla þrátt fyrir fleiri verkefni

Laun eru stærsti þátturinn í rekstri svæðisins og vinna þjóðgarðsverðir þessa dagana að því að skipuleggja árið. „Þetta þýðir minni landvörslu þrátt fyrir fleiri verkefni og fleiri gesti og minni þjónustu í gestastofunni,“ segir Agnes.

„Á Snæfellsöræfum og Krepputungu þurfum við að minnka viðveru landvarða. Umferðin um Krepputungu hefur aukist mikið og þar eru svæði sem eru viðkvæm fyrir utanvegaakstri. Því þarf þar vakt frá morgni til kvölds nánast alla daga sumarsins og fram á haust.

Síðan er líka útlit fyrir að ekki verði opið í Snæfellsstofu í apríl og október eins og í fyrra,“ segir Agnes. Hún bendir ennfremur á að staðan sé snúin, gestastofan sinni fræðslu til gesta og þar með forvörnum auk þess að skapa að einhverju leyti tekjur, meðal annars með sölu minjagripa.

Undanfarin ár hefur borist fjárveiting til landvörslu rétt fyrir sumarbyrjun. Agnes segir þá upphæð nýtast vel til að lengja þau tímabil sem landvarslan sé stunduð en komi of seint til að hægt sé að ráða fleiri landverði. Ekki sé ljóst hvort sú fjárveiting fáist í ár en ljóst sé að hún þurfi að hækka verulega.

Framlag til landvörslu í ferli

Í svari umhverfisráðuneytisins kemur fram að framlög til þjóðgarðsins á fjárlögum hækki um sex milljónir eða tæp 2% frá 2017-2018 og um 28% frá 2015. Í fyrra var tæpum 57 veitt á fjáraukalögum til landvörslu, mun meira en árin tvö á undan. Í heildina vantar því 50 milljónir upp á að sama upphæð sé í hendi og í fyrra.

Það sé stofnunarinnar að ráðstafa þeim fjármunum sem koma af fjárlögum. Fjárveitingar til landvörslu séu í þriggja ára verkefnaáætlun sem verkefnisstjórn leggur til. Tillögur hennar séu væntanlegar innan tíðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.