Þrír styrkir austur við aukaúthlutun úr safnasjóði

Þrjú austfirsk söfn hlutu styrki við sérstaka aukaúthlutun úr safnasjóði á dögunum. Úthlutun var flýtt til að bregðast við afleiðingum af Covid-19 faraldrinum og er styrkjunum ætlað að efla faglegt starf viðurkenndra safna, sem eru fjögur á Austurlandi.

Alls voru 37 styrkir veittir við aukaúthlutunina og samtals var úthlutað rúmlega 40 milljónum króna. Tækniminjasafn Austurlands á Seyðisfirði hlaut hæsta styrkinn sem kom austur, kr. 1.500.000 vegna verkefnisins Recording the immaterial culture: voices of Seyðisfjörður. Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum hlaut styrk að fjárhæð kr. 1.360.000 til söfnunar samtímaheimilda og endurskoðunar sýningardagskrár og miðlunar. Þá fékk Minjasafnið á Bustarfelli í Vopnafirði styrk að fjárhæð kr. 400.000 til að vinna að skráningu gripa safnsins inn á Sarp, sem er sameiginlegur vefur safnanna þar sem gripir eru skráðir og myndir af þeim aðgengilegar almenningi.


Fjögur viðurkennd söfn á svæðinu

Til þess að hljóta styrk úr safnasjóði þarf safnið að vera viðurkennt af Safnaráði í samræmi við Safnalög. Þó geta söfn í eigu ríkisins ekki hlotið styrki úr sjóðnum. Fjögur söfn á Austurlandi eru á þessum lista, þau sem að ofan greinir auk Sjóminjasafns Austurlands á Eskifirði. Öll þessi söfn fengu úthlutað við aðalúthlutun úr sjóðnum fyrir árið 2020, þegar tæpum 140 milljónum króna var úthlutað til safna um land allt. Sjóminjasafnið hlaut þá hæstan styrk safnanna eystra, kr. 1.700.000, Tækniminjasafnið kr. 1.600.000, Minjasafn Austurlands samtals kr. 1.520.000 og Minjasafnið á Bustarfelli samtals kr. 1.100.000.

Ekkert safnanna eystra hlaut svonefndan öndvegisstyrk við aðalúthlutun að þessu sinni en þá er úthlutað styrkjum til allt að þriggja ára í senn.

 

Tækniminjasafn Austurlands á Seyðisfirði hefur hlotið hæstu styrki safna á Austurlandi úr safnasjóði á þessu ári.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.