Þórunn vill bætur til bænda vegna kalskemmda

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á alþingi í upphafi vikunnar kom fram að fyrir Bjargráðasjóði liggja nú samtals 271 umsókn frá bændum austan- og norðanlands vegna 4.700 hektara af kalskemmdum. Ráðherra segir að lítið fé sé til staðar í sjóðnum.
Eins og fram hefur komið áður ollu kalskemmdir í túnum bændum hér Austanlands töluverðum búsifjum í sumar og var heyfengur á sumum bæjum ekki nema svipur hjá sjón miðað við fyrri sumur.

Það var Þórunn Eglisdóttir þingmaður Framsóknarflokksins sem vakti athygli á þessu máli og sagði: .“Ég vil því spyrja hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að aukið fjármagn verði sett í Bjargráðasjóð því að ekki trúi ég því að bændur eigi að sitja einir uppi með þetta tjón.“

Áður hafði komið fram í máli Þórunnar að fyrir utan umsóknir um kalskemmdir væru einnig margar umsóknir vegna skemmda á girðingum norðanlands í ofsaveðrinu sem gekk yfir í desember í fyrra. Þá hafi um 200 km af girðingum „kubbast í sundur“ eins og þingmaðurinn orðaði það.

„Nú er staðan sú að margir eru tæpir á hey og þurfa því að taka ákvörðun um hvort mæta eigi því með fækkun á búfé eða kosta upp á kostnaðarsöm heykaup,“ sagði Þórunn.

„Heyrist mér bændur ekki allir bjartsýnir á að hið opinbera komi að málum með þeim því að ekki hefur verið sett aukið fjármagn í Bjargráðasjóð. Síðast var sótt um aukið fjármagn í hann árið 2013.“

Lítið fé í Bjargráðasjóði

Í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar landbúnaðarráðherra kom fram að hann vildi leita leiða til að bæta bændum þetta tjón. Hann myndi beita sér fyrir slíku í fjárlagagerðinni.

„Það er alveg hárrétt sem kemur fram hjá þingmanni að bændur, sérstaklega á Norður- og Austurlandi, urðu fyrir verulegum búsifjum í tengslum við óveðrið sem hún gerði að umtalsefni,“ sagði Kristján Þór. „Þingmaður nefnir í þessu sambandi Bjargráðasjóð sem starfar samkvæmt lögum frá árinu 2009 og er í grunninn sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Sjóðurinn hefur það verklag að vinna úr eignum sínum auk þeirra fjármuna sem koma árlega á fjárlögum inn í sjóðinn og eignir hans voru um síðustu áramót um 200 milljónir kr. en fjárlögin eru u.þ.b. 8 milljónir á ári sem er lítið fé í því stóra samhengi sem hér er nefnt í kjölfar þessa óveðurs.“

Fram kom í máli ráðherra að fyrir utan 271 umsókn vegna kalskemmda hefðu sjóðnum borist 74 umsóknir vegna girðingaskemmda.

„Það er alveg augljóst að í ljósi þessa umfangs dugar ekki hin venjulega fjárveiting, 8 milljónir kr., og spurning hvaða svigrúm verður til að mæta þessum óskum öllum saman. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að leggja sig fram um það og mun beina þeim tilmælum til þingsins við meðferð fjárlaga að það verði gert.“ sagði Kristján Þór og benti jafnframt á að fordæmi væru fyrir slíku frá árunum 2012 og 2013.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.