Þörf á hjúkrunarheimili í Neskaupstað

Frambjóðendur til bæjarstjórnar Fjarðabyggðar eru sammála um að efla þurfi aðbúnað aldraðra með byggingu hjúkrunarheimilis í Neskaupstað. Eins er þörf á endurnýjun í Breiðabliki.

Þessi málefni voru meðal umræðuefna á fjölsóttum framboðsfundi í Nesskóla í gærkvöldi, en vel yfir 100 manns voru í sal skólans. Þar var meðal annars spurt hvort frambjóðendur vildu breyta reglum um Breiðablik á ný þannig þar yrðu aðeins venjulegar leiguíbúðir fyrir eldra fólk en ekki skilgreindar sem íbúðir með þjónustustigi 1, þegar hjúkrunarheimili yrði komið í bænum.

Munurinn milli þessara stiga er sá að með þjónustustiginu er komið á valnefnd sem metur þörf íbúa á að komast í húsnæði með þjónustu en í leiguíbúðunum er einfaldur biðlisti. Þá var einnig bent á þörf á að endurnýja húsnæði Breiðabliks þar sem innréttingar og fleira sé komið verulega til ára sinna.

„Við þurfum hjúkrunarheimili. Við höfum rætt það við marga heilbrigðisráðherra og þurfum að ræða við þennan sem nýlega er tekinn við,“ sagði Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri og oddviti Framsóknarflokks. Hann sagði þörf á viðamiklu viðhaldið í Breiðablik. Gera þurfti við hluta húsnæðisins í fyrra eftir að þar fannst mygla.

Fleiri frambjóðendur tóku undir þörfina á að ríkið verði fengið að borðinu við uppbyggingu hjúkrunarheimilis og að gengið verði í endurnýjun innanstokksmuna. „Það verður komin ný innrétting þegar þú ferð þarna inn eftir 40-50 ár,“ sagði Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans í svari til spyrjanda.

Hvorki Hjördís Helga Seljan frá Fjarðalista og Anna Margrét Arnarsdóttir, oddviti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, kváðust sjá því nokkuð til fyrirstöðu að breyta Breiðabliki aftur í leiguíbúðir þegar hjúkrunarheimili yrði komið.

„Við verðum að þrýsta á ríkið varðandi hjúkrunarrými. Ríkið á að veita þessa þjónustu,“ sagði Hjördís. „Við erum sammála því að það vanti íbúðir fyrir eldraða. Síðan veit ég að hjúkrunardeildin á sjúkrahúsinu er barn síns tíma,“ bætti Anna Margrét við.

Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokks, sagði lítið vanta upp á þannig hægt væri að skilgreina Breiðablik sem dvalarheimili. Þar með væri hægt að gera kröfu á fjárframlag frá ríkinu. Hann bætti við að einnig þyrfti að fjölga dagþjónustuúrræðum í Fjarðabyggð allri en þar væri sveitarfélagið á eftir öðrum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.