Þjóðverjar horfa til orkuvinnslu á Finnafjarðarsvæðinu

Yfirvöld í Bremen í Þýskalandi renna hýru auga til vindorkuvinnslu í nágrenni Finnafjarðar og telja hana geta átt þátt í orkuskiptum sínum. Samstarfsyfirlýsing við sveitarfélög á svæðinu var endurnýjuð nýverið.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í tilkynningu sem Bremenports, hafnasamlag Bremen, sendi frá sér í gær. Hafnasamlagið hefur undanfarin ár unnið að áformum um stórskipahöfn í Finnafirði, í samvinnu við Langanesbyggð, Vopnafjarðarhrepp og fleiri aðila.

Tilefni tilkynningarinnar er nýafstaðin þriggja daga heimsókn Dr. Claudia Schilling, ráðherra vísinda og hafna í Bremen, til Íslands. Með í heimsókninni voru Robert Howe, framkvæmdastjóri Bremenports, Dr. og dr. Klaus Maier frá vindorkufyrirtækinu WPD. Ferðin var undirbúin af þýska sendiherranum á Íslandi.

Í tilkynningunni kemur fram að Íslendingar séu líkt og Þjóðverjar að skoða hvernig hægt sé að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir betri orkugjafa. Íslendingar séu framarlega á sviði orkumála með vatnsafls- og jarðhitavirkjunum en enn séu aðeins tvær vindmyllur í landinu. Það sé að breytast.

Haft er eftir Schilling að hún geri sér grein fyrir að hérlendis séu svæði sem ekki verið hróflað við en einnig svæði á landi þar sem skilyrði séu hagstæð. Þannig sé staðan í nágrenni Finnafjarðar þar sem vindurinn sé slíkur að sambærileg skilyrði finnist vart á landi heldur hafi úti og verið sé að skoða hugmyndir um þrjú stór vindorkuver, hvert með 80 vindmyllum.

Tekið er fram að þótt áformin í Finnafirði hafi til þessa fyrst og fremst snúist um umskipunarhöfn hafi önnur tækifæri einnig verið höfð í huga. „Grænt rafmagn, framleitt í landi sem einnig er lýðræðisríki, er kjörin lausn fyrir orkuskipti Þýskalands. Þar munu hafnirnar skipta lykilmáli,“ segir Howe.

Um stöðuna í verkefninu segir að horft sé til allt að 1.200 hektara svæði í firðinum sem að mestu sé óraskað. Viðræður um kaup á landinu standi yfir og að samkomulag hafi verið endurnýjað með sveitarfélögin sem veiti Bremenports einkarétt á svæðinu til ársins 2060. Þar segir að framkvæmdir gætu hafist á Finnafjarðarsvæðinu seinni hluta þessa áratugar.

„Finnafjarðarverkefnið er spennandi og metnaðarfullt langtímaverkefni. Það vinnst skref fyrir skref. Þessi ferð sýndi að íslenska ríkisstjórnin og sveitarfélögin á svæðinu treysta á náið samstarf við Bremen,“ segir Schilling.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.