„Þetta er bara spurning um hvernig er hægt að nýta þennan mannskap“

Í janúar var stofnað félag fjarbúa á Borgarfirði eystra. Þórhalla Guðmundsdóttir er formaður félagsins og segir markmið félagsins fyrst og fremst vera að styðja samfélagið á Borgarfirði og leggja eitthvað af mörkum.

Félagið er hugsað fyrir fólk sem á fasteignir á Borgarfirði, dvelur þar einhvern hluta úr ár en á lögheimili annarsstaðar. „Fjarbúi er manneskja sem býr á Borgarfirði hluta af árinu, er ekki með lögheimili en á eign á Borgarfirði og dvelur eitthvað þar. Átthagafélögin eru fyrir brottflutta sem hafa áhuga á því að halda saman og hittast en fjarbúafélagið er í meiri tengslum við samfélagið heima kannski, eða teljum okkur vera það. Dveljum þar meira og viljum leggja eitthvað af mörkum til samfélagsins,“ segir Þórhalla.

Hugmyndin um að virkja fjarbúa vaknaði á íbúaþingi á Borgarfirði á vegum Brothættra byggða sem haldið var í febrúar 2018. „Hugmyndin að stofnun þessa félags kom í rauninni frá heimamönnum á Borgarfirði. Við viljum leggja eitthvað á vogarskálarnar, ekki bara koma austur og njóta. Við viljum taka þátt í samféalginu eða allavega geta stutt það, án þess að við ætlum að taka okkur einhver völd eða taka stórar ákvarðanir. Þetta er bara spurning um hvernig er hægt að nýta þennan mannskap sem er þarna alltaf einhvern hluta úr ári í eitthvað annað en bara að góna útí loftið.“

Þórhalla segir áhuga á félaginu hafa verið nokkurn og góða mætingu á fyrsta félagsfundinn sem haldinn var fyrr í dag. „Félagið var stofnað í janúar og félagar eru orðnir í kringum 40. Fyrsti félagsfundurinn okkar var áðan en frá stofnfundi hefur stjórnin hist nokkrum sinnum. Við vorum svona að segja þeim sem mættu hvað við í stjórinni höfum verið að gera.“

Þórhalla segir að fjarbúarnir vilji styðja borgfirskt samfélag á fjölbreyttan hátt. „Við erum búin að sækja um styrk í sjóði brothættra byggða til dæmis, en höfum ekki fengið svar. Við erum með allskonar hugmyndir um hvernig við getum komið að gagni. Ef verður til eitthvað fjármagn þegar fram líða stundir þá höfum við áhuga á að hjálpa til við að fegra bæinn okkar, við höfum til dæmis áhuga á að koma að því að setja upp skilti, kannski hvað var í þessu húsi eða hver bjó í þessu húsi. Fyrst og fremst er hugmyndin sú að við ætlum ekki að vera neitt stórt vogarafl heldur styðja góðar hugmyndir og styðja samfélagið okkar, við ætlum að mæta á viðburði, versla í Búðinni, tala fallega um sveitina okkar hvetja fólk til að koma og heimsækja staðinn,“ segir Þórhalla.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.