„Þau vinnubrögð sem stunduð eru í Sjómannafélaginu eru að koma í dagsljósið“

Forusta AFLs Starfsgreinafélags telur ekki rétt að hafa afskipti af deilum innan Sjómannafélags Íslands þótt hún sé gagnrýnin á þau vinnubrögð sem innan félagsins hafi verið viðhöfð, meðal annars að reynt hafi verið að grafa undan öðrum verkalýðsfélögum með undirboðum.

Þetta kemur fram í langri yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu AFLs í gær í kjölfar þess að félagsmenn hafa óskað eftir að ályktað verði um málefni Sjómannafélagsins eftir brottvikningu félagsmanns þar sem hugðist bjóða sig fram gegn sitjandi formanni.

Í yfirlýsingunni segir að forusta AFLs hafi ekki lagt í vana sinn að álykta um málefni án samþykki stjórnar, sem fundar ekki fyrr en eftir mánuð. Auk þess sé ekki hefð fyrir afskiptum af málefnum annarra félaga. AFL er hins vegar ekki sátt með vinnubrögð Sjómannafélagsins.

„AFL Starfsgreinafélag hefur lengi verið gagnrýnið á störf Sjómannafélags Íslands. Sú gagnrýni hefur ekki verið sett fram í fjölmiðla heldur innan AFLs og ekki síst sjómannadeildar félagsins. Ég tel að þau vinnubrögð sem í Sjómannafélaginu eru stunduð séu nú að koma í dagsljósið,“ er haft eftir formanni AFLs, Hjördísi Þóru Sigurþórsdóttur.

Fáheyrð ósvífni að reka félagsmann úr verkalýðsfélagi

Hörð átök hafa verið innan Sjómannafélags Íslands undanfarnar vikur eftir að Heiðveig María Einarsdóttir tilkynnti að hún vildi bjóða sig fram gegn sitjandi formanni, Jónasi Garðarssyni. Heiðveig María taldist ekki uppfylla reglur um kjörgengi, að hafa verið í félaginu í þrjú ár en hún sakaði stjórn félagsins um að falsa gjörðabækur.

Þær ásakanir urðu til þess að þrjú sjómannafélög slitu viðræðum um inngöngu í Sjómannafélagið. Stjórnendur þess hafa neitað ásökunum og brugðust við með að reka Heiðveigu úr félaginu á þeim forsendum að hún hefði komið óorði á það og valdið því skaða.

Í yfirlýsingu AFLs segir að það sé „fáheyrð ósvífni af verkalýðsfélagi að reka félagsmann úr félagi vegna gagnrýni á stjórnarhætti. Starfssemi verkalýðsfélaga byggir ekki síst á trausti og samstöðu meðal launafólks í baráttu við fjármálaöfl og launagreiðendur. Bregðist forysta verkalýðsfélags við gagnrýnni umræðu með því að reka félagsmenn úr félaginu - er allt traust farið.“

Minnt er á að Sjómannafélagið sé ekki innan Alþýðusambands Íslands. Það þýði að félagsmenn Sjómannafélagsins standi höllum fæti í baráttunni við stjórn þess þar sem innan ASÍ sé félagsmönnum tryggður málskotsréttur.

Félagsmenn leita aftur til baka eftir stuðningi

Í yfirlýsingu AFLs segir að Sjómannafélag Íslands hafi síðustu ár lagt að austfirskum sjómönnum að ganga í það úr AFLi. Þar hafi „ýmsum meðölum verið beitt sem AFL kærir sig ekki að fjölyrða um en þykja ekki vönduð.“

Félagsmenn hafi hins vegar gengið aftur í AFL þegar þeir hafi þurft aðstoðarvið og ekki fengið viðunandi úrlausn hjá Sjómannafélaginu, en réttindi til sjúkradagpeninga eru til dæmis mun meiri innan AFLs.

Þá er rifjað að bæði Sjómannfélag Íslands, sem og Sjómannafélag Grindavíkur sem nýverið sagði sig úr ASÍ, hafi lent í vandræðum í sjómannaverkfallinu um áramótin 2016/17 þar sem verkfallssjóðir þeirra tæmdust hratt því þau hefðu lækkað félagsgjöld sín. Á meðan hefðu önnur félög, eins og AFL, getað haldið sínu striki allt verkfallið.

Forusta AFLs lýsir þó samúð með stjórn Sjómannafélagsins sem sagt hefur að aðeins hluti þeirra sem skrifað hafi undir kröfu um félagsfund séu í raun félagar. „Ef það reynist satt er ljóst að fólk sem ekki á aðild að Sjómannafélaginu er að reyna að hafa afskipti og áhrif af starfssemi félagsins. Slíkt á heldur ekki að líða. Verkalýðsfélög eru hagsmunasamtök félagsmanna þeirra en ekki annarra. Um það snúast þau.“

Frá fundi í sjómannadeild AFLs.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar