Þarf ódýrar íbúðir fyrir þá sem vilja máta sig við landsbyggðina

Hótelstjóri Öldunnar á Seyðisfirði segir ekkert athugavert við að koma upp ódýru húsnæði fyrir þá sem vilji búa út á landi í skemmri tíma. Margir atvinnurekendur hafa þurft að byggja undir starfsfólk sitt.


Þetta kom fram í máli Davíðs Kristinssonar sem var meðal frummælenda á málþingi sem Austurbrú stóð fyrir um húsnæðismál í fjórðungnum nýverið. Hótel Aldan er meðal þeirra fyrirtækja sem þurft hafa að útvega starfsmönnum sínum íbúðarhúsnæði.

„Mér fannst ekki vera hlutverk mitt að taka ábyrgð á þessu en ég hef þurft að gera það,“ sagði Davíð.

Hann sagði markaðinn erfiðan, íbúðarhúsnæði væri almennt ekki á lausu og enginn vildi byggja, eða lána til framkvæmda, meðan byggingakostnaður væri hærri en endursöluverð.

Höggva þurfi á þann hnút. „Ég er hlynntur því að hér séu einhvers konar verbúðir. Þær þurfa ekki að vera neikvæðar. Þetta verður samfélag þar sem fólk býr í skemmri tíma.

Við erum með ungt fólk sem langar til að prófa að búa úti á landi en þorir því alveg. Þetta þarf ekki að vera flókið, menn hafa rætt um gámaeiningar.“

Davíð þekkir húsnæðismarkaðinn á svæðinu af eigin raun því hann flutti til Seyðisfjarðar til að reka Ölduna fyrir fimm árum. „Við vildum leigja og bjuggum á fimm stöðum fyrstu fjögur árin.“

Hann sagði ekki eingöngu einstakra fyrirtækja að fást við húsnæðismarkaðinn. „Ég þarf hjálp. Þetta er ekki bara mitt.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.