„Þetta verður bylting fyrir íþróttalíf í sveitarfélaginu“

„Ég er einstaklega ánægður með að hönnunin sé komin í gang,“ segir Davíð Þór Sigurðarson, formaður íþróttafélagsins Hattar, en skrifað var undir samninga vegna hönnunar og verkefnastjórnunar á nýrri viðbyggingu við íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum á dögunum. Sefnt að því að húsið verði tekið í notkun árið 2020.


Viðbyggingin verður hönnuð út frá þörfum fimleika- og frjálsíþrótta. Í fréttatilkynningu frá félaginu segir að aðalhönnuður hússins sé Anna María Þórhallsdóttir, en verkfræðistofurnar Efla og Mannvit sjá um aðra hönnunarþætti, svo sem á burðavirki, lögnum og rafkerfum.

Einar Andrésson, svæðistjóri á Austurlandi skrifaði undir samningana fyrir hönd verkfræðistofunnar Eflu og Ágúst Þór Margeirsson, verkefnastjóri, fyrir hönd verkfræðistofunnar Mannvits. Þá var samningur undirritaður við Svein Jónsson um verkefnistjórnun við hönnun og útboð.

Stefnt er að því að hönnun ljúki á vormánuðum
Íþróttafélagið Höttur skrifaði undir samning við sveitarfélagið Fljótsdalshérað á síðasta ári um þessa framkvæmd og er stefnt að því að taka húsið í notkun árið 2020.

„Samhliða þessu verður farið í framkvæmdir er tengjast búningaaðstöðu, starfsmannaaðstöðu og breytingu á innra skipulagi íþróttamiðstöðvarinnar, enda mun nýr íþróttasalur breyta nýtingu núverandi húsnæðis til muna og skapa rými fyrir fjölbreyttari íþróttaiðkun,“ segir Davíð Þór.

Davíð Þór segir undirbúning hafa gengið vel. „Í mars voru teknar prufuholur fyrir tilvonandi grunn og unnið var með niðurstöður úr þeim mælingum. Stefnt er að því að hönnun ljúki núna á vormánuðum og gögn til útboðs verði tilbúin í byrjun sumars. Framkvæmdir á ákveðnum verkþáttum gætu því hafist síðar á þessu ári. Búið er að vinna nokkrar tillögur að útliti og útfærslum sem skoðaðar verða áfram með sveitarfélaginu næstu vikurnar.“

Fimleikaiðkun er komin til að vera
Davíð Þór segir að mikil sjálfboðavinna hafi verið unnin síðustu árin í tengslum við undirbúning verkefnisins. „Þetta verður bylting fyrir íþróttalíf í sveitarfélaginu, en öngu var orðið tímabært að bæta aðstöðu innanhúss vegna þess mikla starfs sem að í boðið er yfir vetrarmánuðina hjá öllum deildum.

Það er alveg skýrt að nauðsynlegt var að bæta aðstöðu fyrir fimleikaiðkun, en greinin nýtur mikilla vinsælda hérlendis og þróun í öðrum byggðarkjörnum hefur verið sú að þar til gerð æfingaaðstaða sé til staðar. Framþróun í aðstöðu er nauðsynleg til að viðhalda þeim árangri sem við höfum náð og við viljum ná enn lengra í sem íþróttafélag. Fimleikaiðkun er komin til að vera og er mikilvægur hlekkur í okkar samfélagsgerð,“ segir Davíð Þór.

Núverandi salur hefur ekki annað eftirspurn
Davíð Þór segir að framkvæmdin muni einnig skila bættri æfingaaðstöðu innanhúss fyrir frjálsar íþróttir innanhúss sem mun einnig skapa tækifæri í þeirri grein. „Þetta verður einnig breyting fyrir aðrar íþróttagreinar sem munu fá meira aðgengi að núverandi íþróttasal og geta því hagað æfingatímum betur en gert sé í dag. Núverandi salur hefut ekki annað eftirspurn í langan tíma, en íþróttafélaginu eru átta deildir starfandi með um 900 iðkendur á öllum aldri. Þessi framkvæmd mun því gagnast öllum iðkendum.“

Óskum eftir áhugasömum aðilum og fyrirtækjum
Davíð segir að spennandi tímar séu framundan. „Við erum að leita leiða með einstaklingum og fyrirtækjum í samfélaginu okkar til að láta þetta verða að veruleika. Í gegnum árin höfum við séð velvilja baklands íþróttahreyfingarinnar í að láta verkefni ganga upp, þar sem aðilar á vegum íþróttafélagsins gefa tíma og orku sína í málefni. Þessi framkvæmd sé ein af þeim stærri og mikilvægari fyrir samfélagið á Fljótsdalshéraði þegar horft er til barna og ungmenna, en ástundun í íþróttastarfi hefur sýnt sig sem mikilvægur þáttur í forvarnastarfi barna og ungmenna og í sveitarfélaginu sé til staðar öflugt, fjölbreytt og vel skipulagt íþróttastarf, sem hafi áhrif á búsetu kosti barnafjölskyldna. Höttur óskar því eftir að þeir sem hafi áhuga og vilja til að ljá þessu verkefni krafta sína hafi samband, því lykillinn er gott samstarf milli hugsanlegra aðila að mismunandi verkefnaþáttum.“

Viðbygging mynd 1 web

Viðbygging mynd 2 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar