„Þetta er eins og heimilisiðnaður“

„Við erum búnar að loka dæminu og nú er bara verið að huga að uppstillingu fyrir helgina,“ segir Guðrún Smáradóttir, en hún sér um skipulagningu fjölskylduhátíðarinnar Neistaflugs ásamt dætrum sínum Eyrúnu Björgu og Maríu Bóel Guðmundsdætrum.


„Þetta er eins og heimilisiðnaður, við vinnum þetta allt að heiman,“ segir Guðrún, en hún tók við framkvæmdastjórn Neistaflugs í fyrra og vann þá einnig að hátíðinni með dætrum sínum, en í ár snérust hlutverkin við þegar Eyrún Björg tók við framkvæmdastjórinni, en þær Guðrún og María Bóel eru meðstjórnendur. Auk þeirra hefur Guðjón Birgir Jóhannsson hjá Hljóðkerfaleigu Austurlands komið að skipulagningu hátíðarinnar.

Dagskrá Neistaflugs hefst á morgun miðvikudag en formleg setning hátíðarinnar verður ekki fyrr en á föstudagskvöldið. „Við breyttum hátíðinni þegar við tókum við henni í fyrra, lögðum meiri áherslu á tónleika auk þess sem við færðum hátíðarsvæðið og breyttum uppröðun hefðbundinna viðburða. Ég myndi segja að hápunktur helgarinnar væru útitónleikarnir á sunnudagskvöldið sem svo enda með flugeldasýningu,“ segir Guðrún, en engir aðrir en Stuðmenn stíga á stokk á umræddum tónleikum, en dagskrána í heild sinni má sjá hér.

„Ég hef lært alveg helling af þessu“
Eyrún Björg hefur unnið stíft að skipulagningu síðastliðinn mánuð og eru þær mæðgur sammála um að allur undirbúningur sé auðveldari nú en í fyrra í ljósi reynslunnar.

„Það er allt miklu léttara þegar maður er búinn að gera þetta einu sinni, við eigum alla punkta og vissum fyrirfram hvað gekk upp og hvað mætti betur fara. Ég hef lært alveg helling af þessu og þetta er líklega öðruvísi sumarvinna en hjá almennum háskólanema,“ segir Eyrún Björg sem var að klára BA nám í íslensku frá Háskóla Íslands í vor og ætlar að leggja stund á ritlist í sama skóla í haust.

„Engin af okkur hefði líklega búist við að við ættum eftir að vinna saman mæðgur. Við þurfum að vera samstilltar og jákvæðar – við erum ekkert alltaf sammála en þá bara leysum við það. Þetta er mjög gaman og þjappar okkur enn meira saman, þetta er öðruvísi samvera,“ segir Guðrún.

Róðurinn þyngri í ár
Guðrún segir róðurinn hafa verið þyngri fjárhagslega í ár en í fyrra. „Hátíðin er rekin af styrkjum og svo borgandi viðburðum á borð við tónleika og dansleiki. Styrkir hafa dregist saman, sum fyrirtæki standa þó alltaf með okkur en önnur hafa lækkað sitt framlag eða horfið. Aðrir aðilar hafa þó komið í staðinn, en þetta er þyngra í rekstri í ár, það er staðreynd. Við vonum að ballið með Stjórninni á laugardagskvöldið verði smekkfullt sem og tónleikarnir með Dúndurfréttum á fimmtudagskvöldið, það verða að vera okkar burðarásar í ár.“

Í það minnsta sól í sinni og hjarta
Aðspurð um veðrið um helgina segir Guðrún; „Það er svo langt í helgi. Annars sagði ég í viðtali á Bylgjunni í gær að ef það yrði ekki sól á himni þá yrði hún bara í sinni okkar og hjarta, það er bara svoleiðis.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.