Telur vænlegra til árangurs að auka eftirlitið heima í héraði

Formaður heilbrigðisnefndar Austurlands telur ríkisstofnanir sýna tilhneigingu til að draga til sín verkefni frekar en útvista þeim til staðbundinna stofnana, svo sem Heilbrigðiseftirlits Austurlands (HAUST). Hann segir eftirlitið vel í stakk búið til að taka að sér fleiri verkefnum sem fjölgað gæti opinberum störfum á landsbyggðinni.

Umhverfisstofnun ákvað í síðasta mánuði að endurnýja ekki samning sinn við HAUST um eftirlit með fiskimjölsverksmiðjum. Nokkur misseri eru síðan stofnunin ákvað einnig að sjá sjálf um eftirlit með sorpurðunarstöðum sem HAUST sinnti áður fyrir hana.

Heilbrigðisnefndin hefur nokkrum sinnum á undanförnum árum lýst mótbárum við fyrirhugaðan flutning verkefna frá HAUST. Í bókun frá síðasta fundi nefndarinnar segir að sárt sé að horfa á eftir verkefnum flytjast frá sveitarfélögum á landsbyggðinni til ríkisstofnana á höfuðborgarsvæðinu.

„Þegar stofnanir eins og Matvælastofnun og Umhverfisstofnun urðu til sáum við fyrir okkur miðlæga stýringu en að eftirlitið væri í meiri mæli heima í héraði. Síðastliðin ár hafa þessar stofnanir því miður haft tilhneigingu til að draga frekar að sér verkin frekar en framselja þau.

Ég þekki ekki ástæðuna, hvort þetta sé að einhverju leiti vegna hagræðingarkrafna, en okkur finnst þetta skjóta skökku við á sama tíma og talað er um störf án staðsetningar eða horfa til þess að fækka ferðum með loftlagsvána í huga. segir Jón Björn Hákonarson, formaður heilbrigðisnefndarinnar.

HAUST sýnt að það er traustsins vert

Hann telur HAUST vel geta sinnt þessum verkum og meiru til. „Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna hefur byggst upp síðustu ár með öflugum starfsstöðvum með vel menntuðu starfsfólki. Þótt það starfsfólk sem flýgur hingað austur sé allra góðra gjalda vert og vel hæft í sínu starfi þá teljum við vænlegra til árangurs að efla eftirlitið heima í héraði.

HAUST hefur sýnt að því er treystandi fyrir verkefnum. Það er líka betra fyrir atvinnulífið og samfélagið að hafa eftirlitið í nágrenninu þannig hægt sé að bregðast við eftir atvikum. Svo er það önnur umræða hve mikið eftirlitið eigi að vera yfirleitt.“

Tilbúið að bæta við sig verkefnum

Hann segir að ekki þurfi að fækka starfsfólki HAUST vegna uppsagnar þjónustusamningsins en á sama tíma glatist tækifæri til að bæta við. „Við erum þegar með starfsfólk í Múlaþingi, Fjarðabyggð og Hornafirði. Við höfum bent á að við höfum umgjörð og vel menntað starfsfólk sem geti bætt við sig verkefnum. Ef verkefnum fjölgar þá getum við fjölgað starfsfólki. Ég held það sé líklegra að einingar eins og HAUST geti dregið til sín fólk frekar en einmenningsstöðvar.

Í bókun nefndarinnar er kallað eftir viðbrögðum frá þingmönnum og ráðherrum vegna málsins. „Þetta er ekki fyrsta skipti sem við ræðum við stjórnvöld og þingmenn. Við höfum líka áhyggjur af því að til skoðunar séu lagafrumvörp og reglugerðir sem miði að því að færa eftirlitið enn frekar inn í stofnanir og kippa þar með frekar fótunum undan eftirliti sveitarfélaganna.

Stundum er eins og markmiðið sé að fækka minni stofnunum á landsbyggðinni. Við höfum ítrekað bent á þetta sem við teljum öfugmæli við markmið um byggðastefnu og störf án staðsetningar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.