Telur enga sprengjuhættu vegna bruggtækja

Austri brugghús á Egilsstöðum notar bruggtæki sem flutt eru inn frá Kína. Vinnueftirlitið hefur bannað notkun þessa búnaðar yfir ákveðnum þrýstingi með vísan til krafna sem settar eru fram í gildandi reglugerð um þrýstibúnað. Austri hefur, ásamt nokkrum öðrum brugghúsum, kært þessa ákvörðun Vinnueftirlitsins til velferðaráðuneytisins.


Í fréttatilkynningu frá Vinnueftirlitinu kemur fram að eftirlitið vilji vekja athygli á því að innflytjendur þrýstibúnaðar frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem ætlaður er til bjórframleiðslu gangi úr skugga um að slíkur búnaður uppfylli þær kröfur sem gilda um þrýstibúnað.

„Þetta mál er í kæruferli og við erum að bíða eftir niðurstöðum úr því,” segir Karl Lauritzson framkvæmdastjóri Austra.

Karl segir að þeir geti ennþá bruggað bjórinn. „Þetta snýr hins vegar að þrýstingnum sem myndast þegar við kolsýrum hann. Þá fer þrýstingurinn yfir þessi leyfilegu mörk samkvæmt reglum Vinnueftirlitsins,“ segir hann.

Í fréttatilkynningunni segir einnig að eftirlitið líti það alvarlegum augum ef slíkur þrýstibúnaður sé í notkun þegar ekki liggur fyrir með viðunandi hætti að hann uppfylli þær öryggiskröfur sem gerðar eru til hans lögum samkvæmt, en þá sé sprengihætta af honum.

Bjórinn hjá Austra er kolsýrður í sama tanki og hann er bruggaður. Er það líka hluti af vandamálinu því Vinnueftirlitið vill að þeir kaupi tank sem er sérstaklega ætlaður undir kolsýrun. “Þetta hefur ekki verið vandamál hjá okkur hingað til og við teljum að það stafi engin hætta af tönkunum.“

Austri er meðal sjö annarra brugghúsa á landinu sem hafa kært þessa ákvörðun. „Tankarnir eru þrýstiprófaðir af framleiðandanum á miklu hærri þrýstingi en notaður er venjulega og vottaður af þeim.


Vinnueftirlitið tekur ekki mark á þeirri vottun því framleiðandinn er ekki innan Evrópusambandsins,” segir Karl og bætir við að að málið sé í farvegi.

Þeir hafi greint framleiðanda tækjanna frá stöðu mála og framleiðandinn hafi þá sett sig í samband við Vinnueftirlitið. Austri bíður nú eftir svari frá framleiðandanum um hvað hafi komið úr þeim viðræðum.


Fagradalsbraut 25. Húsnæði Austra. Mynd úr safni. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.