Telja stjórnendur Vopnafjarðarhrepps ekki standa við gefin loforð

Stjórn AFL Starfsgreinafélags vill að forsvarsmenn Stapa lífeyrissjóðs haldi áfram að leita réttar félaga í uppgjöri á vangreiddum lífeyrisiðgjöldum hjá Vopnafjarðarhreppi. Bæði verkalýðsfélagið og lífeyrissjóðurinn telja stjórnendur sveitarfélagsins ganga á bak fyrri loforðum með nýlegu tilboði um uppgjör.

Meirihluti sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps samþykkti í síðasta mánuði fyrir sína hönd uppgjör gagnvart Stapa á ógreiddum lífeyrissjóðskröfum. Það fól í sér greiðslu á höfuðstól kröfu og ógreiddum vöxtum, upp á um 44 milljónir króna.

Lífeyrissjóðurinn hafði hins vegar farið fram á að hreppurinn greiddi ávöxtun á iðgjöldin, 3,5% sem er meðalávöxtun sjóðsins. Þar með er heildarupphæðin 72 milljónir króna.

Gátu ekki sannreynt fullyrðingar launafulltrúa

Málið snýst um vangreiddi iðgjöld af hálfu hreppsins á árunum 2005-2016 og ábyrgð á þeim. Óumdeilt er að sveitarfélagið greiddi 8% mótframlag í stað 11,5% eins og átti að gera. Í yfirlýsingu hreppsins frá því í júní er lýst þeirri skoðun að lífeyrissjóðurinn eigi að bera hluta af tapinu þar sem ekki hafi verið gerðar athugasemdir af hálfu Stapa og þar með ekki verið staðið vörð um réttindi sjóðsfélaga.

Þeirri fullyrðingu er hafnað í bæði yfirlýsingum stjórnar AFLs frá því í síðustu viku og Stapa frá því fyrir síðustu mánaðarmót. Í þeim báðum er bent á að á að fyrirrennari Stapa, Lífeyrissjóður Austurlands, hafi strax árið 2005, gert athugasemdir við launafulltrúa Vopnafjarðarhrepps en fengið þau svör að hreppurinn væri ekki aðili að þeim samningi sem lífeyrissjóðurinn taldi að fara ætti eftir.

Í yfirlýsingu Stapa er bent á að lífeyrissjóðir hafi ekki upplýsingar um eftir hvaða kjarasamningum sjóðsfélagar fái greitt né hvaða stéttarfélagi þeir tilheyri. Ekki hafi því frekar verið hægt að sannreyna fullyrðingar hreppsins á sínum tíma og sjóðsfélagar hafi ekki gert athugasemdir. Þá sé það launagreiðanda að þekkja þá kjarasamninga sem hann greiði eftir og standa við hann.

Herma loforð upp á hreppinn

Félagsmaður AFLs og sjóðsfélagi hjá Stapa gerði athugasemdir við greiðslurnar árið 2016. Þá fór boltinn að rúlla og síðan hafa farið fram fundir og bréfaskriftir vegna málsins. Stjórn AFLs minnir á að á fundi með þáverandi sveitarstjóra í byrjun árs 2018 hafi hann lofað að gert yrði að fullu upp við þá sem áttu kröfu um mótframlag á Vopnafjarðarhrepp. Það loforð sé „ekki fyrnt.“

Í ljósi þessa hafi yfirlýsing hreppsins frá því í júní komið sem „köld vatnsgusa“ og „áfall“ fyrir félagsmenn AFLs sem treyst hafi á loforð um að þeir yrðu ekki fyrir skerðingum.

Í yfirlýsingu meirihluta hreppsnefndar segir að sveitarstjórn beri ábyrgð gagnvart öllum íbúum sveitarfélagsins, ekki bara starfsmönnum og þá sé greiðslugeta hreppsins skert um þessar mundir. Minnihluti Samfylkingarinnar lagði fram sérbókun um að rétt væri að standa að fullu við skuldbindingar gagnvart iðgjöldunum.

Una ekki þessum málalokum

Stjórn AFLs gagnrýnir harðlega afstöðu meirihlutans. Ekki sé „ábyrg fjármálastjórn að hafa lífeyri af starfsmönnum“ sem hafi unnið hafi fyrir sveitarfélagið um áraraðir. Þá séu það ekki rök fyrir að skerða umsamin lífeyrisréttindi að rekstur sveitarfélagsins sé tæpur um þessar mundir.

„Svo virðist sem sveitarstjórnarmenn skilji ekki hvernig lífeyrissjóðir virka – því margoft hefur komið fram í samskiptum ósk þeirra um að Stapi taki hluta tjónsins á sig. Stapi Lífeyrissjóður á enga peninga heldur eru allir fjármunir sem þar eru vistaðir, eyrnamerktir sjóðfélögum. Þannig að til að bæta einum sjóðsfélaga tap vegna vangreiddra iðgjalda þarf að taka réttindi af öðrum en til þess hefur stjórn sjóðsins enga heimild,“ segir í bókun stjórnar AFLs. Hún lítur enn fremur svo á að mörg rök séu fyrir því að ákvæði laga um fyrningu eigi ekki við. Stjórnin heitir því enn fremur að ekki verði unað við þessi málalok. Haldið verði áfram í samvinnu við lögmenn félagsins og Stapa.

Þær upplýsingar fengust hjá Stapa á föstudag að yfirlýsing AFLs styrkti enn frekar skilning lífeyrissjóðsins á stöðu málsins. Afgreiðsla hreppsins væri ekki í samræmi við það sem lagt hefði verið upp með. „Við vinnum áfram í samræmi við það sem við teljum rétt í þessum máli og höldum áfram samtali við sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps,“ sagði Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar