Telja sjálfbærniverkefnið merkilegt á heimsvísu

Fulltrúar Fjarðaáls, Austurbrúar og Landsvirkjunar undirrituðu í gær áframhaldandi samkomulag um sjálfbærniverkefnið á Austurlandi. Verkefnið felst í að safna og gera aðgengileg gögn um þróun umhverfis, efnahags og samfélags á Austurlandi í kjölfar Kárahnjúkavirkjunar og byggingu álversins á Reyðafirði.

„Þetta verkefni er merkilegt á heimsvísu því svona eftirfylgni er ekki sjálfsögð,“ sagði Sigurður Guðni Sigurðsson, deildarstjóri vatnsaflsdeildar Landsvirkjunar, við undirritunina í gær.

Þungamiðja verkefnisins er vefurinn sjalfbaerni.is þar sem nálgast má bæði nýjustu gögn verkefnisins sem og aftur í tímann og hægt að fylgjast með þróuninni á svæðinu undanfarinn áratug.

Í ár eru tíu ár liðin síðan álverið var gangsett og vonast forstjóri þess, Magnús Þór Ásmundsson, til þess að gögn sjálfbærniverkefnisins nýtist vel.

„Þetta er mjög merkileg gögn sem geta verið gott innlegg fyrir háskólasamfélagið eða aðrar rannsóknir á þessu sviði. Það er mikilvægt fyrir okkur sem hugum að samfélagsábyrgð og sjálfbærni að þekkja áhrifin og geta fylgst með þeim jákvæðu áhrifum sem við teljum vísana sína.

Þetta verkefni varð til vegna óska úr samfélaginu um að þessir þættir yrðu skoðanir. Ég tel þessi gögn vannýtta auðlind og nú sé tækifæri til að koma þeim betur á framfæri.“

Undir þetta tók Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar. „Nú er komin tímaröð af gögnum sem hægt er að vinna meira með í tengslum við túlkanir. Það verður áhugavert að sjá hvaða aðilar nýta sér þetta til dýpri greiningar.“

Sjálfbærniverkefnið var stofnað af Alcoa Fjarðaáli og Landsvirkjun árið 2004 til að vakta áhrif framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun og álversins í Reyðarfirði á samfélag, umhverfi og efnahag á Austurlandi.

Í upphafi skilgreindi samráðshópur, skipaður fulltrúum samfélagsins, hvaða málefni væru mikilvægust út frá áhyggjum og væntingum fólks í tengslum við framkvæmdirnar og mótaði út frá því tillögur að vísum.

Vísarnir eru 45 og mælikvarðarnir 78 og eru þeir flokkaðir í samfélagsvísa, umhverfisvísa og efnahagsvísa. Mælingar á þessum vísum hafa nú staðið yfir í 10 ár. Austurbrú hefur hefur annast umsjón verkefnisins síðan 2013.

Mynd: Samningurinn var undirritaður í húsnæði Austurbrúar að Vonarlandi á Egilsstöðum; f.v., Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdastjóri Austurbrúar og Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Alcoa Fjarðaáls.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.