Telja ekki farið að lögum við breytingar á reglum um Vatnajökulsþjóðgarð

Umhverfis- og framkvæmdanefnd Fljótsdalshéraðs telur að ekki hafi verið farið eftir lögum um þjóðgarðinn þegar tillaga að nýrri stjórnunar- og verndaráætlun var sett fram í vor. Nefndin gagnrýnir áætlunina harðlega og segir að með drögunum sé valdið fært frá heimafólki.

Nefndin átelur stjórn þjóðgarðsins fyrir að hafa reynt að breyta áætluninni á grundvelli undanþáguákvæðis um „lítilsháttar óumdeildar breytingar“ en um sé að ræða efnislegar breytingar sem varði mikilsháttar atriði.

Þá gagnrýnir nefndin að henni hafi ekki borist formleg erindi með ósk um umsögn um áætlunina.

Nefndin finnur nýju áætluninni ýmislegt til foráttu, þó helst það að fjarlægst sé markmið sem lagt var með í upphafi um atvinnuuppbyggingu og aðkomu heimamanna að stjórnun. Þvert á móti séu stjórnvöld „að sölsa undir sig skipulags- og framkvæmdavald sveitarfélaga, óháð þörfum eða væntingum heimamanna.“

Dæmi um það sé að svæðisráðum sé lítið hlutverk falið og það illa skilgreint. Í áætluninni sé einnig talað um svæði „rétt utan þjóðgarðs.“ Ekki sé ásættanlegt að Vatnajökulsþjóðgarður reyni að hlutast um svæði sem hann hafi enga lögsögu yfir.

Þvert á fyrirheit um að styrkja við ferðamennsku séu sett höft og hindranir og litlar áætlanir séu um uppbyggingu innviða í þjóðgarðinum. Bent er á vegslóða frá Snæfellsskála að Sauðárkofa sem ekki hafi verið lagaður eða haldið opið, þrátt fyrir ákvæði um annað í gildandi verndaráætlun.

Þá skorti nær alla umfjöllun um hvort og hvernig nýta eigi gjaldtökuheimildir, en áform hafa verið um gjaldtöku af gestum bæði við Jökulsárlón og Dettifoss. Minnt er á að áætlunin eigi að fela í sér stefnu um hvernig nær séu nýttar, meðal annars til að ekki verði raskað atvinnustarfsemi og uppbyggingu á svæðunum.

Þá minnir nefndin ennfremur á að ekki hafi verið staðið við loforð í upphafi um að yfirstjórn garðsins hafi aðsetur utan höfuðborgarsvæðisins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar