Tekjur Fjarðabyggðar aukast en fjárhagsáætlun varfærin

Tekjur Fjarðabyggðar munu aukast á næsta ári í ljósi aukins loðnukvóta en sveitarfélagið er samt varfærið í tekjuspá sinni fyrir komandi ár samkvæmt fjárhagsáætlun sem samþykkt var af bæjarstjórn í vikunni.

Fram kemur í máli Jóns Björns Hákonarsonar, bæjarstjóra, að töluverður viðsnúningur sé milli áætlana fyrri ára og ársins 2022 sem skýrist af mikilli óvissu í efnahagslífinu sökum Covid-19 sem hafði mikil efnahagsleg áhrif í Fjarðabyggð sem annars staðar. Þeim var að hluta mætt með auknum fjárfestingum og fjölgun sumarstarfa.

„Þrátt fyrir að sveitarfélagið hafi staðið í miklum fjárfestingum síðustu ár og hyggi á áframhald í þeim efnum þá er ekki gert ráð fyrir lántökum í áætlun ársins 2022. Það er afar mikilvægt markmið til framtíðar litið að stilla fjárfestingar í takt við rekstur þess á hverjum tíma.“

Nýtt íþróttahús og skólar í forgang

Meðal þess helsta sem Fjarðabyggð vill gera á næsta ári er að ljúka byggingu nýs íþróttahúss á Reyðarfirði en ráðgert er að taka það í notkun strax á haustmánuðum. Hafist verður handa við endurbætur á lóð Nesskóla og finna á nýjar leiðir til að stækka leikskólann Dalborg á Eskifirði í kjölfar þess að engin tilboð bárust í útboði nýlega.

Lokið verði við að byggja nýja þjónustumiðstöð á Fáskrúðsfirði og áfram verður haldið að lagfæra gatnakerfið á Breiðdal og sömuleiðis áfram haldið uppbyggingu á skjalasafni sveitarfélagsins í Lúðvíkshúsi auk þess sem lokið verður við bryggjusmíði á Eskifirði.

Íþrótta- og tómstundastyrkir

Á næsta ári verður hafin vinna við innleiðingu á íþrótta- og tómstundastyrkjum til handa börnum og ungmennum í sveitarfélaginu. Greiddar verða tíu þúsund krónur á hvert barn í þeirri von að styrkja þátttöku barna og ungmenna í íþrótta- og tómstundastarfi. Systkinaafslættir áfram við lýði í leikskólunum og skólamáltíðir verða áfram gjaldfrjálsar.

Stoðþjónusta ætti að batna til muna með innleiðingu Spretts sem er þverfaglegt teymi sérfræðinga hvers hlutverk er snemmtæk íhlutun til að bæta utanumhald þeirra sem þurfa á aðstoð og stuðningi að halda.

Þá skal fjárfest í sérstækum húsnæðisúrræðum og byggja smærri hús bæði á Norðfirði og Reyðarfirði sem auðvelt yrði að flytja til ef þörfin breytist.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.