Takmarkaður réttur í innanlandsfluginu

Farþegar í innanlandsflugi eiga takmörkuð réttindi þegar flugi þeirra seinkar, jafnvel þótt það hafi talsvert áhrif á líf þeirra.

„Við höfum fengið eitthvað af málum sem tengjast innanlandsfluginu. Þau eru sennilega færri vegna þess að fólk kemst fljótt að því að í svona stuttum flugum er rétturinn takmarkaður,“ segir Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna.

Samtökin birtu fyrir helgi frétt á heimasíðu sinni þar sem farið er yfir helstu réttindi flugfarþega þegar flugi er seinkað eða aflýst. Eins og Austurfrétt greindi frá í síðustu viku hafa verið verulegar raskanir á flugi milli Egilsstaða og Reykjavíkur undanfarna tvo mánuði.

Þeir eru eru reyndar ekki einu flugfarþegarnir í vanda en víða um heiminn hefur ólag verið á flugi, svo sem vegna starfsmannaskorts og mikillar eftirspurnar eftir að takmarkanir vegna Covid-faraldursins voru afnumdar að mestu.

Réttindi farþega virkjast undanbragðalaust sé flugi aflýst en skilyrðin eru þrengri ef flugi seinkar. Þau velta þá annars vegar á lengd flugsins sjálfs, hins vegar hve mikil seinkunin er. Engin réttindi eru til staðar sé seinkunn á flugi milli Egilsstaða og Reykjavíkur minni en þrír tímar, samkvæmt reiknivél samtakanna. Við þriggja tíma seinkunn skapast réttur á hressingu og mögulega gistingu en eftir fjóra tíma er hægt að kanna rétt á skaðabótum.

Þótt miklar seinkannir hafi orðið á fluginu ná þær sjaldnast meiru en tveimur tímum. Það þýðir þó ekki að óþægindin séu ekki mikil.

„Þótt evrópsk löggjöf skilgreini íslenskt innanlandsflug ekki sem almenningssamgöngur þá eru íslensk stjórnvöld, meðal annars með Loftbrúnni, í raun búin að viðurkenna að flugið séu almenningssamgöngur.

Þótt seinkunin nái ekki tveimur tímum er ekki þar með sett að hún setji ekki plön fólks í uppnám, til dæmis að mæta í jarðarför. Af því að það eru vart aðrir kostir til staðar er mikilvægt að geta treyst á þessa þjónustu og það setur líka aukna kröfu á flugfélagið að standa sig,“ segir Brynhildur. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.